Taprekstur á Vínbúðahluta ÁTVR?

Heiðrún, stærsta verslun ÁTVR.
Heiðrún, stærsta verslun ÁTVR. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Á vefsíðunni Vinbudin.com er því haldið fram að ríkissjóður tapi á að halda úti smásöluverslunum með áfengi, og vísað í skýrslu sem Clever Data vann fyrir aðstandendur síðunnar.

Síðunni er haldið úti af stuðningsmönnum þess að selja áfengi í matvöruverslunum. Þar segir að rekstrartekjur ÁTVR af sölu tóbaks séu í raun notaðar til að niðurgreiða smásölu á áfengi. ÁTVR myndi því skila ríkissjóði meiri tekjum ef hið opinbera léti einkaaðila sjá um smásölu á áfengi en héldi eftir heildsölu á tóbaki.

Á vefsíðunni segir: „Samkvæmt ársreikningi ÁTVR árið 2013 er hagnaður stofnunarinnar 1,3 milljarðar. Hins vegar má einnig sjá að rekstrartekjur fyrir tóbakssölu eru meira en þriðjungur af heildar rekstrartekjum.

Það er augljóst að rekstur tugi vínbúða um allt land, með launakostnaði, dreifingarkostnaði, rekstri á húsnæði og fleira, er mun hærri heldur en rekstur eins tóbakslagers upp á Stuðlahálsi. Gera má ráð fyrir að rekstur vínbúðarhluta ÁTVR sé um 90% af heildarrekstarkostnaði stofnunarinnar.

Það er því spurning hvort að ÁTVR sé að fela taprekstur á vínbúðum með miklum hagnaði af tóbakssölu, og ríkið myndi græða enn meira ef þeir myndu aðeins standa í rekstri á tóbaksvörulager. Tilraunir Vínbúðarinnar til að fá upplýsingar um þetta hjá ÁTVR hafa ekki borið árangur.

Finnur Árnason forstjóri Haga benti í viðtali í áramótablaði Viðskiptablaðsins á þjóðhagslegan ábata þess að leggja niður ríkisverslun með áfengi: „Íslenskar verslanir geta tekið þessa verslun yfir án þess að það hafi teljandi aukakostnað í för með sér, en sparnaðurinn fyrir ríkið yrði verulegur. Tekjur af áfengissölu myndu ekki minnka og ábatinn fyrir ríkið því augljós.“

Að gefa verslun með áfengi frjálsa myndi að öllum líkindum bæta afkomu ríkissjóðs og samfélagsins í heild. Þar sem verslanir munu fá nýja veltumikla vöru inn til sín án þess að auka fjárfestingu þá mun tekjuskattur af verslun aukast. Með því að gefa söluna frjálsa er hægt að minnka heildarrekstrarkostnað verslunar á Íslandi og gera kaupin þægilegri með sama hætti og þegar sala á mjólk var gefin frjáls.

Greiningarfyrirtækið Clever Data vann skýrslu um rekstur ÁTVR fyrir Vinbudin.com.“

Skýrslu Clever Data má nálgast hér. Í henni er gerður fyrirvari við tölurnar, þar sem greiningarfyrirtækið hafði aðeins aðgang að þeim gögnum sem ÁTVR hefur gert aðgengileg almenningi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK