Verið er að leggja lokahönd á hótelið við Höfðatorg en byggingin verður afhent eigendum Fosshótela, sem munu annast rekstur þess, um mánaðamótin. Von er á fyrstu gestunum 2. júní og eftir það munu streyma inn gestir á hótelið, Fosshótel – Reykjavík.
Samkvæmt upplýsingum frá Davíð Torfa Ólafssyni, framkvæmdastjóra Íslandshótela, sem eiga og reka Fosshótel, hafa bókanir gengið vonum framar og ljóst að mikil eftirspurn var eftir hótelinu sem er fjögurra stjörnu.
Hallgrímur Magnússon, byggingarstjóri Eyktar á Höfðatorgsreitnum, segir að áætlanir um afhendingu muni standast komi ekkert óvænt upp á. Það standi tæpt og undanfarnar vikur hafi verið unnið mikið fyrir utan hefðbundinn vinnutíma og dagarnarnir oft langir hjá starfsfólki Eyktar og undirverktaka sem koma að byggingu hótelsins.
Ágúst 2013 - maí 2015 19 hæðir og 320 herbergi
Í júlí 2013 var skrifað undir samning um að hefja framkvæmdir og í ágúst það sama ár fékk Eykt byggingarleyfi á lóðinni. Á átján mánuðum hafa því risið 19 hæðir, þar af bílakjallari á þremur hæðum, en alls eru 320 herbergi, þar af sjö svítur á 16. hæðinni, sem er sú efsta, á hótelinu. Hótelið, sem verður það stærsta á landinu, er nánast fullbókað í sumar.
Hallgrímur segir að á sama tíma og starfsmenn Eyktar og undirverktakar séu að leggja lokahöndina á bygginguna og lóðarfrágang, séu starfsmenn Fosshótela byrjaðir að undirbúa komu gesta, meðal annars með því að setja lausar innréttingar inn í herbergin og gera eldhúsið klárt.
Þegar blaðamaður mbl.is kom við á Höfðatorgi í vikunni var allt á hvolfi og fólk að störfum uppi um alla veggi. Enda mikið í húfi – standa á við samkomulagið um afhendingu hótelsins um mánaðamótin maí/júní.
„Okkar markmið er að skila öllu hótelinu af okkur nú um mánaðamótin óháð því hvað rekstraraðilinn vill gera. Það er í hans höndum að ákveða hvort allar hæðir fari í útleigu strax eða hvernig þessu verður háttað.“
Búið að ljúka við 11 hæðir
Að sögn Hallgríms eru ellefu neðstu hæðirnar tilbúnar og þar er verið að setja inn lausamuni og annað slíkt í herbergin á þessum hæðum. Eykt er aftur á móti að ganga frá síðustu atriðunum á efstu hæðunum fimm, tengja stofnlagnakerfið sem og öryggiskerfi byggingarinnar.
Á sama tíma er byrjað á fjölbýlishúsi á tólf hæðum á Höfðatorgsreitnum og í undirbúningi eru tvær skrifstofubyggingar.
Það er komið byggingarleyfi fyrir næsta áfanga bílakjallarans og er unnið að hönnun íbúðaturnsins sem mun rísa á Höfðatorgi við hliðina á hótelinu. Um er að ræða sameiginlegan bílakjallara með öðrum byggingum á reitnum með bílastæði fyrir starfsmenn, gesti og íbúa á Höfðatorgsreitnum, tengd saman neðanjarðar.
Eykt byggir íbúðaturninn líkt og aðrar byggingar á Höfðatorgsreitnum en félagið Höfðaíbúðir mun eiga íbúðirnar og selja þær á almennum markaði en ekki liggur ljóst fyrir hvenær framkvæmdum verður lokið.
Þegar er farið að skoða næstu möguleika á Höfðatorgsreitnum en þar er gert ráð fyrir tveimur sjö og níu hæða skrifstofuturnum til viðbótar. Unnið er að hönnun þeirra og er máli í vinnslu hjá skipulagsyfirvöldum.
Hallgrímur segir að fjölbýlishúsið verði væntanlega ekki byggt jafn hratt og hótelið enda reynir slíkt mjög á starfsfólkið - að vera undir stöðugum þrýstingi varðandi skil.
Undanfarna átján mánuði hafa á milli tvö og þrjú hundruð unnið að byggingu hótelsins en nú eru um tvö hundruð að störfum þar á vegum Eyktar og eins og áður sagði eru vinnudagarnir langir enda að miklu að stefna, að skila verkinu um mánaðamót.
„Þetta hefur verið stöðug keyrsla allan tímann og vinnudagurinn nánast aldrei undir tíu tímum og nú undir það síðasta enn lengri, og við finnum það að það er að koma þreyta í mannskapinn. En verklok nálgast óðum og ánægjulegt að sjá að með samstilltu átaki tekst þetta,“ segir Hallgrímur.
Hann óttast áhrif verkfalla og segir að þau séu byrjuð að segja til sín þar sem framleiðendur og birgjar úti á landi eru í verkfalli. Þetta hefur þýtt að vörur fyrir hótelið hafa ekki borist á réttum tíma en við vonum það besta, segir Hallgrímur sem hefur í meira en nógu að snúast þessar vikurnar enda nálgast skiladagurinn óðum.
mbl.is hefur fylgst með byggingu hótelsins allt frá því að skrifað var undir samning um byggingu þess sumarið 2013. Nú er verkinu að ljúka en síðasta greinin um byggingu Fosshótels - Reykjavík verður birt í byrjun júní þegar verki lýkur.