Hin gullfallega Jessica Alba er þekktust fyrir Hollywood myndir og að hafa trónað á toppi flestra lista yfir kynþokkafyllstu konur heims. Það sem færri vita er að fyrir nokkrum árum stofnaði hún fyrirtæki sem framleiðir eiturefnalausar barnavörur og er í dag metið á hundruð milljarða króna.
Jessica Alba stofnaði fyrirtækið The Honest Company árið 2011. Fyrirtækið framleiðir ýmsar vörur s.s. bleiur, föt, baðolíur, krem og hvaðeina sem að börnum kemur. Hún leggur áherslu á að allar vörur séu algjörlega lausar við eiturefni og umhverfisvænar.
Það sem er frábrugðið við fyrirtækið er að viðskiptavinir gerast áskrifendur og fá allar nauðsynjar og nýjar vörur sendar heim að dyrum. Áskriftarpakkarnir eru nokkrir og kosta allt frá 36 dollurum, eða um 4.700 krónum til 120 dollara, eða 16.000 króna. Fyrirtækið sendir þó ekki til Íslands, eða annarra landa utan Bandaríkjanna og Kanada, en á heimasíðunni segir að stefnt sé að því.
Á dögunum var Alba með fyrirlestur á ráðstefnu á vegum kínverska netrisans Alibaba: Alibaba Global Conference on Women and Entrepreneurship. Á ráðstefnunni sagði Jack Ma, stofnandi Alibaba, m.a. að sterkar konur væru „leynisósa“ (e. secret sauce) fyrirtækisins.
Alba sagði frægðina vissulega hafa hjálpað að einhverju leyti og vakið athygli á fyrirtækinu þegar það var í startholunum. Hins vegar hefðu margir einnig efast um hæfileika hennar á viðskiptasviðinu sökum bakgrunnsins og hún lýsti því hvernig fólk úr viðskiptaheiminum hefði ranghvolft augunum þegar hún útlistaði markmið sín.
„Fólk hugsar frekar um einhvern í minni stöðu sem talskonu. Sem einhvern sem myndi selja snyrtivörur,“ sagði Alba á ráðstefnunni. „Flestir ráðgjafar mínir sögðu mér að búa til ilmvatn, eða eitthvað annað í þá áttina.“
Hún sagðist hins vegar hafa viljað skapa öruggari og heilbrigðari heim fyrir börnin sín og allra annarra. Hún benti á að magn ýmissa eiturefna í mörgum daglegum vörum hefði stóraukist á liðnum áum. „Mér fannst sem einhver þyrfti að gera betri vörur; sem eru öruggar, lausar við eiturefni, í fallegum umbúðum, á hagstæðu verði og auðvelt að nálgast.“
Í dag er ljóst að hugmyndin reyndist góð þar sem fyrirtækið er metið á rúman milljarð Bandaríkjadala, eða um 132 milljarða íslenskra króna.
<iframe allowfullscreen="" frameborder="0" height="315" src="https://www.youtube.com/embed/L-xt-GUgU1U" width="560"></iframe><div id="embedded-remove"> </div>Grein Huffington Post.