Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, fullyrðir að Guðmundur Árnason ráðuneytisstjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu hafi með símtölum við sig, dagana 30. júní og 2. júlí 2014, reynt að hlutast til um skipan stjórnarformanns fjármálafyrirtækis sem ríkið á eignarhlut í og einnig reynt að fá stjórnarfundi í sama fyrirtæki frestað.
Frétt mbl.is: Hafnar ásökunum um óeðlileg afskipti ráðuneytisstjóra
Þetta kemur fram í umsögn stofnunarinnar við frumvarp til laga um meðferð og sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, sem fjármála og efnahagsráðherra hefur lagt fyrir Alþingi. Í umsögninni segir: „Forstjóri Bankasýslu ríkisins mótmælti umræddum afskiptum og taldi þau ekki vera í samræmi við lög. Upplýsti hann stjórn stofnunarinnar tafarlaust um afskiptin.
Eru afskipti ráðuneytisstjórans einkum alvarleg í ljósi þess að samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og samþykktum þeirra er það hlutverk kjörinnar stjórnar að skipta með sér verkum og kjósa sér formann, en ekki eigenda nema samþykktir kveði svo á um, og hlutverk stjórnarformanns að boða til stjórnarfunda, en ekki eigenda. Ætti ráðuneytisstjóra að vera fullkunnugt um þetta, enda er löggjöf um fjármálafyrirtæki á forræði þess.“ Fjármálaráðuneytið hefur hafnað þessum ásökunum.
Stofnunin heldur því fram að með flutningi verkefna hennar inn í ráðuneytið muni hættan á hagsmunaárekstrum aukast og að ríkissjóður verði fyrir verulegu fjártjóni.
Í fyrrnefndri umsögn er einnig bent á að hvergi sé málum hagað með þeim hætti að fjármálaráðuneyti fari með eignarhluti viðkomandi ríkis í fjármálastofnunum. Bankasýslan tilgreinir í því sambandi meðal annars Bretland, Holland, Grikkland og Spán.
Í fyrstnefnda landinu var nýlega tilkynnt að auka ætti sjálfstæði þeirrar stofnunar sem fer með eignarhluti breska ríkisins í Lloyds Bank og Royal Bank of Scotland. Hvergi í samanburðarlöndunum er eignarhlutur ríkisins jafn hátt hlutfall þjóðarframleiðslunnar og hérlendis. Á liðnu ári var hlutur íslenska ríkisins af VLF tæp 14% en það var 6,9% á Írlandi og 3,7% á Spáni.
Í umsögninni er einnig farið yfir þann árangur sem náðst hefur á liðnum árum í þeirri viðleitni að endurheimta þá fjármuni sem ríkið lagði til við stofnun nýju bankanna. Þannig er bent á að stofnunin hafi nú þegar endurheimt 41% upphaflegs hlutafjárframlags en það nam á sínum tíma 138,2 milljörðum króna.