Gestir inn - iðnaðarmenn út

Það eru mörg handtökin á bak við Fosshótel Reykjavík við Höfðatorg enda von á fyrstu gestunum á mánudag. Jimmy Wallster, hótelstjóri, segir að þetta muni allt ganga upp. „Um leið og gestirnir ganga inn um framdyrnar laumast iðnaðarmennirnir út um bakdyrnar.“

Undanfarna átján mánuði hefur mbl.is fylgst með byggingu hótelsins og hitt Hallgrím Magnússon, byggingarstjóra Höfðatorgs, reglulega og farið yfir stöðu mála með honum. Þrátt fyrir að stutt sé í afhendingu byggingarinnar, er Hallgrímur rólegur yfir þessu öllu saman enda ljóst að það tekst að ljúka verkefninu á tilsettum tíma og að kostnaðaráætlanir standast. Verkefni Eyktar á Höfðatorgsreitnum er hins vegar hvergi nærri lokið því byrjað er að vinna við tólf hæða íbúðaturn sem á að rísa við hlið hótelsins. Jafnframt stendur til að reisa tvær sjö og níu hæða skrifstofubyggingar á Höfðatorgsreitnum og er unnið undirbúningi þess verkefnis um þessar mundir.

Í júlí 2013 var skrifað und­ir samn­ing um að hefja fram­kvæmd­ir og í ág­úst það sama ár fékk Eykt bygg­ing­ar­leyfi á lóðinni. Á átján mánuðum hafa því risið 19 hæðir, þar af bíla­kjall­ari á þrem­ur hæðum, en alls eru 320 her­bergi, þar af sjö svít­ur á 16. hæðinni, sem er sú efsta, á hót­el­inu. Kostnaður við byggingu hótelsins nemur um átta milljörðum og er það í samræmi við það sem lagt var af stað með þegar skrifað var undir samninginn fyrir tæpum tveimur árum.

Fjögurra stjörnu hótel

Jimmy segir að í byggingunni verði einnig skrifstofa Fosshótela til húsa og söluskrifstofa keðjunnar. Alls munu tæplega 140 starfa á hótelinu í sumar en að vetri til verði þeir 112 talsins. Það er ekki mikil fækkun milli árstíma enda hefur veturinn komið mjög vel út hjá öðrum Fosshótelum í Reykjavík.

Fosshótel Reykjavík er fjögurra stjörnu hótel en í upphafi stóð til að það yrði þriggja stjörnu. En þar sem hótelið stóð fyllilega undir fjórum stjörnum var ákveðið að miða við þann flokk þó svo verðið á herbergi sé heldur lægra en á Grand hótel sem einnig er í eigu Íslandshótela sem eiga og reka Fosshótelakeðjuna.

Áhersla á fjölskylduherbergi

Að sögn Jimmy var þörf fyrir hótel í þessum klassa og verðflokki í Reykjavík og það sjáist á eftirspurninni nú þegar. Hluti herbergjanna eru rýmri og eru þau herbergi hugsuð sem fjölskylduherbergi og segir Jimmy að það hafi vantað slíka þjónustu á hótelum í Reykjavík. Í þessum herbergjum er svefnsófi auk tvíbreiðs rúms og jafnframt verður ýmis afþreying í boði fyrir börn. Eins eru samtengd herbergi á hótelinu sem eru ætluð fyrir fjölskyldur og vinahópa.

Eitt af því sem Jimmy nefnir sérstaklega þegar hann fer um hótelið með blaðamanni eru rúmin en hann segir að áhersla hafi verið lögð á að rúmin væru góð. „Þegar þú kemur á hótel þá er þrennt sem skiptir mestu máli: góður svefn, góður morgunverður og vinaleg þjónusta. Ef þú getur boðið upp á þessi þrjú atriði þá ættir þú að geta rekið gott hótel,“ segir Jimmy.

Með því að reisa svo stórt hótel sem rúmar 650 manns er hægt að taka á móti stórum hópum og stendur þeim til boða að halda fundi þar en tveir fundarsalir eru á annarri hæð hótelsins. Þrátt fyrir það er hótelið ekki sérstaklega markaðssett sem ráðstefnuhótel og á Jimmy frekar von á því að útlendir gestir nýti sér fundaraðstöðuna heldur en Íslendingar.

Svíturnar á sextándu hæðinni eru mismunandi af stærð, þær stærstu 65-69 fm. Þaðan er útsýnið mikið yfir borgina og segist Jimmy hafa fulla trú á því að þær eigi eftir að njóta vinsælda meðal gesta.

Á fyrstu hæð hótelsins verður rekinn veitingastaður, Haust, sem tekur 210 gesti í sæti. Þar verður boðið upp á morgunverðarhlaðborð, hádegisverð og kvöldverð. Staðurinn opnar strax eftir helgi og verður hann opinn fyrir gesti og gangandi.

Á fyrstu hæð hótelsins verður rekinn veitingastaður sem nefnist Bjórkjallarinn og opnar sá staður fimmtudaginn 4. júní. Staðurinn er í eigu Íslandshótela en verður rekinn sjálfstætt og aðrir annast reksturinn á honum en hótelinu og veitingastaðnum Haustið. Jimmy segir að þar verði sæti fyrir rúmlega 100 manns og boðið upp á fingrafæði, með aðaláhersluna á pylsur.

Svíi sem ílengdist á Íslandi

Það vekur athygli hvað Jimmy Wallster talar góða íslensku en hann kom hingað árið 2007 frá Svíþjóð og var ætlunin að fara í reisu um heiminn. En ferðalagið varð ekki lengra því hér kynntist hann konunni sinni og settist hér að.

Áður en hann tók við starfi hótelstjóra á Fosshótel Reykjavík var hann hótelstjóri á Patreksfirði á Fosshótel Vestfirðir en kona hans er frá Tálknafirði. Það var um svipað leyti og það hótel var opnað fyrir tveimur árum að eigendur Íslandshótela höfðu samband við Jimmy og báðu hann um að taka að sér stjórn hótelsins á Höfðatorgi. Hann tók vel í það og fyrsta árið fylgdist hann með undirbúningi og byggingunni úr fjarska. Það var síðan í september sl. sem þau fluttu til Reykjavíkur og hann kom inn í reksturinn á Höfðatorgi af fullum þunga. Því það var að mörgu að hyggja, meðal annars að panta húsgögn og koma að allri hönnun og skipulagningu, ráða starfsfólk og svo mætti lengi telja.

Jimmy er menntaður þjónn og er frá Stokkhólmi. Hann hafði áður verið hótelstjóri á Fosshótelunum í Skaftafelli og á Húsavík. Hann rak áður veitingastað í Svíþjóð en hann hefur lengi unnið í hótel- og veitingageiranum þrátt fyrir ungan aldur en hann er 28 ára gamall.

Það er von á tæplega 90 gestum á hótelið á Höfðatorgi eftir tvo daga og enn er allt á fullu í byggingunni. Á fimmtudagskvöldið var tekið upp úr síðasta húsgagnagámnum en alls hafa verið teknir inn 28 fjörtíu feta gámar með húsgögnum fyrir hótelið undanfarna mánuði. Íþróttafólk, bæði úr sunddeild Breiðabliks og knattspyrnudeild Stjörnunnar, hafa komið að undirbúningnum á kvöldin og um helgar. Hluti þess hóps hefur ráðið sig til starfa á hótelinu í sumar og segir Jimmy að þessi hópur hafi staðið sig rosalega vel en þetta hafa þau gert í fjáröflunarskyni.

Á mánudag verða fyrstu fimmtán hæðirnar að fullu tilbúnar og sextánda hæðin fljótlega eftir það. Að sögn Jimmy er hótelið meira bókað en þeir hafi átt von á. Yfir 70% af hótelherbergjum eru bókað í júní og 85% í júlí. „Við erum mjög sátt með það hvernig þetta lítur út fyrir sumarið og það verður spennandi að fara af stað með þetta eftir mikla vinnu undanfarin misseri,“ segir Jimmy og bætir við að það hefði ekki verið hægt nema vegna þess hversu góður hópur hafi komið að allri vinnu við hótelið.

Fosshótel Reykjavík við Höfðatorg
Fosshótel Reykjavík við Höfðatorg mbl.is/Golli
Fosshótel Reykjavík Höfðatorgi
Fosshótel Reykjavík Höfðatorgi mbl.is/Eggert Jóhannesson
Miklar gatnaframkvæmdir eru fyrir framan hótelið en þeim á að …
Miklar gatnaframkvæmdir eru fyrir framan hótelið en þeim á að ljúka eftir helgi. mbl.is/Golli
Hótelið við Höfðatorg
Hótelið við Höfðatorg mbl.is/Golli
Hallgrímskirkja blasir við hótelgestum á Fosshótelinu við Höfðatorg
Hallgrímskirkja blasir við hótelgestum á Fosshótelinu við Höfðatorg mbl.is/Golli
Jimmy Wallster, hótelstjóri á Fosshóteli Reykjavík hefur haft í nægu …
Jimmy Wallster, hótelstjóri á Fosshóteli Reykjavík hefur haft í nægu að snúast að undanförnu mbl.is/Golli
Hallgrímur Magnússon byggingarstjóri Höfðatorgs
Hallgrímur Magnússon byggingarstjóri Höfðatorgs mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK