Ný skipaskrúfa var tilnefnd til hvatningarverðlauna SFS á dögunum. Það er skipaverkfræðistofan Skipasýn sem stendur að hönnuninni í samstarfi við Hraðfrystihúsið Gunnvöru og Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum.
Rakel Sævarsdóttir, verkefnastjóri hjá Skipasýn, segir hugmyndina í sjálfu sér ekki nýja af nálinni. „Sævar Birgisson, verkfræðingur hjá stofunni, hefur í mörg ár verið að mæla fyrir því að settar væru stærri skrúfur á skipin. Svo virðist sem olíuverð hafi ekki verið nógu hátt til að skapa nægilega sterkan hvata fyrir útgerðir til að taka stökkið og prófa nýja hönnun.“
Að sögn Rakelar er ljóst að stærri skrúfa skilar mun betri eldsneytisnýtingu. „Síðast stækkuðu skipsskrúfurnar í olíukreppunni á áttunda áratugnum og fóru úr tveimur metrum í þvermál upp í þrjá metra. Með nýju skrúfunum sem Skipasýn hefur hannað er farið úr þremur metrum upp í fimm.“
Stóra skrúfan verður notuð á tveimur fimmtíu metra togurum sem eru núna í smíði í Kína, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í ViðskiptaMogganum í dag.