Búið að kaupa skattaskjólsgögnin

Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknastjóri.
Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknastjóri. mbl.is/Árni Sæberg

Gögn sem tengja Íslendinga við skattaskjól og ríkinu voru boðin til sölu eru komin í hendur embættis skattrannsóknarstjóra.

Þetta staðfestir Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri í samtali við mbl.is. Greiðsla fyrir gögnin hefur ennfremur farið fram. Seljandi þeirra fór upphaflega fram á 150 milljónir króna fyrir gögnin en að lokum var samið um greiðslu upp á 30 milljónir.

„Það er búið að ganga frá þessu og gögnin eru komin hingað í hús og það er búið að ganga frá greiðslunni. Næstu skref eru þau að fara yfir þessi gögn og taka ákvörðun um það með hvaða hætti verði unnið úr þessu,“ segir Bryndís. Um sé að ræða gögn sem tengja Íslendinga við félög í skattaskjólum sem séu um 400-500 talsins.

Aðspurð segir Bryndís vinnuna vera á byrjunarstigi. „Svo þarf að greina gögnin og móta verklag með hvaða hætti verður unnið úr þessu. Þetta er auðvitað mikið magn af gögnum.“ Spurð hvort hún geri sér grein fyrir því hversu langan tíma sú vinna geti tekið segist hún ekki geta sagt til um það.

„Sum málin eiga sér eflaust einhverjar skýringar og einhverjir telja þetta réttilega fram eins og gengur,“ segir Bryndís. Rannsóknir á skattabrotum geti tekið nokkra mánuði og jafnvel nokkur ár í tilfelli þyngstu málanna. Hver raunin verði í þessum efnum verði að koma í ljós.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK