Bjórgarðurinn verður formlega opnaður í dag, en þar munu bjóráhugamenn geta komið saman, vætt kverkarnar og borðað mat undir áhrifum götumenningar í New York. mbl.is kíkti í heimsókn á staðinn, sem er í Fosshótelinu við Þórunnartún 1.
Á staðnum er stærsta bjórdæla landsins, með alls tuttugu og tveimur krönum og boðið verður upp á tegundir sem ekki hafa sést hér á landi fyrr. Þá verður í fyrsta skipti á Íslandi hægt að fá mat og bjór sérstaklega paraðan saman, en að sögn Lofts Hilmars Loftssonar, rekstrarstjóra, upphefur bjór allar máltíðir.
Staðurinn mun taka 120 manns í sæti en lögð verður sérstök áhersla á vítt úrval af bjór ásamt mat undir áhrifum götumenningar New York borgar. Meðal annars verður boðið upp á sérgerðar Grillowa ostapylsur frá Pylsumeistaranum sem bornar eru fram með ýmsu meðlæti.
Þeir Loftur H. Loftsson, rekstarstjóri og Bjarni Rúnar Bequette, yfirkokkur munu leiða starfið á Bjórgarðinum ásamt Jimmy Wallster, hótelstjóra Fosshótel Reykjavík. Allir hafa þeir unnið unnið hjá Fosshótelum um tíma en taka nú að sér stærri og kröfumeiri verkefni. Þá verður sérstakur bjórráðgjafi á staðnum.
Staðurinn er hannaður af Leifi Welding sem meðal annars hefur komið að hönnun veitingastaða á borð við Grillmarkaðinn, Fiskfélagið og Sushi Samba. Þar má einnig finna feiknarstórt listaverk af tveimur einstaklingum af skála eftir Arngrím Sigurðsson, sem Loftur segir stærstu skál landsins.
Við Höfðatorg er búið að opna stærsta hótel á Íslandi og er það 17 þúsund fermetrar og 320 hótelherbergi eru í húsinu.