Sveitarfélögin á Norðurlandi vestra hafa undirritað samstarfssamning við Klappir Development ehf. um uppbyggingu og rekstur á 120.000 tonna álveri á fyrirhuguðu iðnaðarsvæði við Hafursstaði í Skagabyggð. Sveitarfélögin sem um ræðir eru Blönduósbær, Húnavatnshreppur, Húnaþing vestra, Sveitarfélagið Skagaströnd, Skagabyggð og Sveitarfélagið Skagafjörður. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sveitarfélögunum.
Samningur sveitarfélaganna og Klappa er gerður í framhaldi þingsályktunar sem samþykkt var á Alþingi 15. janúar 2014 um að koma á samstilltu átaki stjórnvalda og sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu um eflingu atvinnulífs og sköpun nýrra starfa á Norðurlandi vestra með uppbyggingu orkufreks iðnaðar. Samstarfið byggir einnig á sameiginlegri yfirlýsingu sveitarfélaganna og Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 10. október 2014, um eflingu atvinnulífs og sköpun nýrra starfa með nýtingu raforku sem framleidd er í sýslunni.
Segir í tilkynningunni að með uppbyggingu orkufrekrar starfsemi á fyrirhuguðu iðnaðarsvæði við Hafursstaði sé horft til þeirra jákvæðu samfélagslegu áhrifa sem fylgt hafa stóriðju á Grundartanga og á Reyðarfirði. Í tengslum við uppbyggingu verður ráðist í gerð stórskipahafnar við Hafursstaði auk uppbyggingar annarra innviða á Norðvesturlandi.
Áætlanir gera ráð fyrir 240 varanlegum störfum í álveri Klappa og allt að 800 tímabundnum störfum á byggingartíma. Orkuþörf álversins er 206 MW, sem reiknað er með að komi frá Blönduvirkjun í samræmi við vilja og samkomulag heimamanna og stjórnvalda þegar virkjunin var byggð. Tímasetning á afhendingu á orku frá Blönduvirkjun til álvers á Hafursstöðum byggist m.a. á að þá verði fyrir hendi orka til afhendingar til núverandi viðskiptavina virkjunarinnar.