Mál Björgólfs Thors Björgólfssonar gegn Róberti Wessman og Árna Harðarsyni verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Í ágúst stefndi Björgólfur þeim fyrir að hafa á ólögmætan hátt dregið sér fjórar milljónir evra í eigin þágu.
Telur Björgólfur að sér hafi verið skapað fjártjón sem samsvarar helming af þeirri fjárhæð.
Í stefnu málsins, sem Viðskiptablaðið greindi upphaflega frá, var málavöxtum lýst þannig að forstöðumenn Salt Investments, þ.e. Róbert og Árni, hafi fært fjórar milljónir evra sem voru í eigu félagsins Mainsee 516 af reikningi Actavis, sem hafði fjármunina í vörslu, inn á reikning Salt Investments, án samráðs eða samþykkis stjórnar eða eigenda Mainsee 516.
Þeir Róbert og Árni hafi síðan nýtt fjármunina í eigin þágu og á sama tíma komið fjármununum frá því að vera fullnustaðir af Glitni banka, sem hafi lánað Mainsee 516 peningana til kaupa á lager af lyfjum. Björgólfur hafi þannig orðið fyrir fjártjóni vegna þess að hann hafði undirgengist sjálfskuldaraábyrgð ásamt Róberti og þurft að standa skil á hærri fjárhæð en ella, ef peningarnir hefðu ekki verið teknir „traustataki“ af Róberti eins og segir í stefnunni.
Eftir að fjölmiðlar greindu frá málinu sendi Róbert Wessman frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagði spunameistara Björgólfs vera farna af stað eina ferðina enn.
„Ég vill nota tækifærið og skora á Björgólf Thor að fara í ísfötubað, enda virðist hann þurfa smá kælingu. Þannig má líka komast hjá því að eyða tíma og fjármunum dómstóla í að fjalla um tilhæfulaus mál,“ sagði Róbert.
„Þann 25. apríl 2012 gerði ég og Salt investment dómsátt við Björgólf Thor (félög hans) sem fól í sér að máleferlum aðila myndu ljúka. Allir ættu að þekkja niðurstöðu þeirra mála, þar sem Novator var gert að greiða 40 milljónir evra en innheimta þeirra fjármuna reyndist árangurslaus. Þrátt fyrir að dómsáttin hafi verið Björgólfi Thor mjög hagstæð virðist sem hann sé gjörsamlega friðlaus í þessu máli og er greinilega mikið um að halda áfram deilum við mig,“ sagði í yfirlýsingunni.