Þrjú hundruð manns starfa í lyfjaverksmiðju Actavis á Íslandi en ákvörðun hefur verið tekin um að færa framleiðsluna úr landi. Starfsmenn voru látnir vita í morgun en fyrstu uppsagnir verða eftir átján mánuði og þær verða framkvæmdar á sex mánaða tímabili
Í tilkynningu frá Actavis í morgun sagði að gert væri ráð fyrir að starfsemi verksmiðjunnar á Íslandi verði lögð niður um mitt ár 2017.
Í samtali við mbl segir Robert Stewart, forstjóri samheitalyfjasviðs og alþjóðaframleiðslu Actavis plc., móðurfélags Actavis á Íslandi, að enginn sé að missa vinnuna á næstunni og að ákvörðunin muni ekki hafa áhrif á starfsemina.
Þá segir Robert það ekki liggja fyrir hvort einhverjum starfsmönnum verði boðin önnur störf innan fyrirtækisins. Í öðrum einingum, sem áfram verða hér á landi, starfa um 400 manns.
Í tilkynningunni í morgun var haft eftir Robert að Actavis myndi veita starfsfólkinu stuðning, bjóða upp á þjálfun og umbuna starfsfólkinu sérstaklega fyrir að vinna með þeim í gegnum breytingarnar. Aðspurður hvers konar umbun sé átt við segir Robert að ekki sé búið að fara yfir smáatriðin en að það verði gert á næsta mánuðinum.
Hann segir að starfsfólki verði boðin starfsráðgjöf og starfsþjálfun fyrir önnur störf.
Actavis hefur farið í gegnum margvíslegar breytingar á undanförnum árum með yfirtökum og samrunum innan lyfjageirans. Eftir nýlegan samruna við bandaríska frumlyfjafyrirtækið Allergan er fyrirtækið orðið eitt af 10 stærstu lyfjafyrirtækjum í heimi.
Lokun verksmiðjunnar á Íslandi kemur til í kjölfar greiningar á framleiðslustarfsemi samstæðunnar til þess að hámarka nýtingu á framleiðslugetu samstæðunnar. Niðurstaðan var að aðrar verksmiðjur hafa svigrúm til að taka við þeim vörum sem framleiddar eru á Íslandi.
Í tilkynningunni í morgun sagði að lokunin væri gerð í hagræðingarskyni til þess að tryggja samkeppnishæfni fyrirtækisins á alþjóðavettvang.
Robert segir Actavis ekki vera með neinar sérstakar krónutölur að markmiði í hagræðingunni heldur væri markmiðið fyrst og fremst að ná meiri skilvirkni í framleiðslu þar sem samkeppnin er hörð og verðþrýsingur frá viðskiptavinum til staðar.