Stofnskrá Innviðafjárfestingabanka Asíu (Asian Infrastructure Investment Bank, AIIB), sem Ísland er stofnaðili að, var samþykkt á ráðherrafundi stofnríkja bankans í Peking í dag. Ragnar Baldursson sendifulltrúi skrifaði undir fyrir hönd Íslands.
Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir að ákveðið hafi verið að stefna að kosningu forseta bankans á sjötta undirbúningsfundi stofnríkja, sem haldinn verður í Tíblisi í ágúst.
AIIB er fjárfestinga- og þróunarbanki sem mun styðja aðgerðir til að efla innviði í Asíu.
Aðild Íslands að bankanum er ætlað að styrkja góð samskipti Íslands og Asíuríkja og í tilkynningu segir að aðildin gæti þýtt aukin tækifæri fyrir íslenskt viðskiptalíf í Asíu.
Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu er heildarstofnfé bankans 100 milljarðar Bandaríkjadala. Þar af nemur er hlutur Íslands 0,018% sem nemur því samtals um 17,6 milljónum Bandaríkjadala, eða 2,3 milljörðum króna.
Þar af kemur eingöngu 20% fjárhæðarinnar til greiðslu, en 80% stofnfjár getur bankinn kallað eftir ef þörf er á, þ.e. stofnfjárloforð.
Hið inngreidda stofnfé verður samkvæmt þessu um 470 milljónir króna, sem greiðist í fimm hlutum á fyrstu tveimur árum í starfsemi bankans, eða alls 94 milljónir króna í hverri greiðslu.
Sem stofnaðili verður atkvæðavægi Íslands þó mun hærra, eða um 0,28%.