Sjónvarpsstöðin Reelz hefur tekið það að sér að sýna frá fegurðarsamkeppninni Ungfrú Bandaríkin. Keppninni hefur verið kastað á milli stöðva síðan Donald Trump talaði með niðrandi hætti um mexíkóska innflytjendur, en Trump á keppnina að hluta.
Sjónvarpsstöðin Univision var fyrst til þess að gefa keppnina frá sér en síðar sagðist NBC ekki heldur ætla að sýna frá henni og var keppnin, sem fer fram þann 12. júlí, því orðin heimilislaus.
Aðdáendur voru margir orðnir áhyggjufullir og komst kassamerkið #SavetheSash í umferð á samfélagsmiðlum eftir að undirskriftalisti var stofnaður þar sem NBC var beðið um að endurskoða ákvörðunina.
Reelz tilkynnti á Facebook að stöðin myndi sýna keppnina og lét kassamerkið einmitt fylgja.
Forstjóri Reelz, Stan Hubbard, sagði í samtali við CNN að ákvörðunin væri ekki af pólitískum toga. Keppnin væri einfaldlega stórmerkilegur sjónvarpsviðburður. Þá sagði hann að Trump myndi líklega tapa á keppninni í ár, en sjónvarpsstöðin hyggst borga um 100 þúsund dollara, eða um 13 milljónir króna, fyrir að sýna frá henni. Þá sagðist hann vera sammála sjónarmiðum Univision og NBC um ummæli Donalds Trump og sagði þau vera fáránleg.
Meðal annarra fyrirtækja sem hafa slitið á tengslin við Trump sökum ummælanna er Macy's, en fyrirtækið sagðist í vikunni ætla að taka fatalínu hans úr sölu.
Ummælin lét Trump falla þegar hann tilkynnti framboð í forvali Repúblikanaflokksins um forsetaframbjóðanda flokksins. „Þeir koma með fíkniefni, þeir koma með glæpi, þetta eru nauðgarar og ég býst við að sumir þeirra séu ágætir, en ég tala við landamæraverði og þeir segja mér hvað við fáum,“ sagði hann í ræðu sinni hinn 16. júní.
Exciting news for those who want to #SavetheSash! The #MissUSA pageant is coming to REELZ.
Posted by ReelzChannel on Thursday, July 2, 2015