Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, hefur sent bankastjóra Landsbankans bréf þess efnis að bankinn sé velkominn með höfuðstöðvar sínar í bæinn. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
„Ég benti Landsbankanum á að við eigum talsvert land á besta stað á höfuðborgarsvæðinu, það er að segja á Glaðheimasvæðinu, rétt hjá Smáralind,“ er haft eftir Ármanni í fréttinni.
Ármann segir að ekki sé talað um verð lóðar í bréfinu. „Það er bara verið að bjóða upp á viðræður ef til þess kæmi að Landsbankinn endurskoðaði afstöðu sína,“ segir Ármann en til stendur að reisa höfuðstöðvar bankans við Hörpu í Reykjavík.
Í Fréttablaðinu er einnig rætt við Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúa Landsbankans, sem segir að bankinn hafi skoðað „eiginlega allt höfuðborgarsvæðið“ og gefið sér ákveðnar forsendur. „Sú lóð sem við höfum valið er sú sem passar best inn í þær forsendur sem við höfum gefið okkur.“