Netárásin á framhjáhaldssíðuna Ashley Madison gæti kostað fyrirtækið um 200 milljónir dollara, eða um 27 milljarða króna.
Nokkrir mánuðir eru síðan fyrirtækið tilkynnti um fyrirhugað hlutafjárútboð þar sem talið var að um 200 milljónir dollara gætu safnast. Eftir árásina verður hins vegar líklega ekki af því þar sem fyrirtækið hefur misst allan trúðverðugleika og tölvuþrjótarnir hóta því að halda áfram að birta persónuupplýsingar þar til síðunni verður lokað.
Frétt mbl.is: Birtu viðkvæm gögn ótrúrra maka
Hópurinn sem réðist á síðuna kallast „The Impact Team“ en tilgangurinn var meðal annars að sýna fram á blekkingar fyrirtækisins sem rukkar viðskiptavini um 19 dollara fyrir að eyða aðgangi þeirra alfarið. Hópurinn hélt því fram að upplýsingunum væri í rauninni ekki eytt.
Rúmlega 37 milljón manns nota síðuna sem er hönnuð til þess að aðstoða fólk í samböndum við að halda framhjá mökum sínum. Hópurinn hefur þegar birt upplýsingar um hluta viðskiptavinanna, s.s. upplýsingar um raunveruleg nöfn þeirra og heimilisfang.
Í tilkynningu frá hópnum sagði að allar upplýsingar, þar á meðal um kynlífsóra og greiðslukort, yrðu birtar ef síðan yrði ekki tekin niður.
Í tilkynningu sem Ashley Madison sendi frá sér fyrr í dag segir að unnið sé með lögregluyfirvöldum að rannsókn innbrotsins í gagnagrunninn og að þeir sem eru ábyrgir muni fá að gjalda fyrir brot sín.