Tekjublað Frjálsrar verslunar kemur út eldsnemma á laugardagsmorgun og fer í dreifingu upp úr klukkan átta um morguninn. Blaðamenn tímaritsins þurfa að hafa hraðar hendur því álagningarskrár verða lagðar fram á föstudag. Blaðið verður þannig unnið yfir daginn og prentað aðfaranótt laugardags.
Í blaðinu eru birtar launatekjur valinna einstaklinga fyrir síðasta ár en fjármagnstekjur eru hins vegar ekki teknar með í reikninginn. Tekjurnar þurfa þá ekki að endurspegla föst laun viðkomandi þar sem munur getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga.
Tekjublaðið er gefið út af Frjálsri verslun sem er elsta viðskiptatímarit landsins og gefur út 11 blöð á ári en auk Tekjublaðsins má þar nefna bókina um 300 stærstu fyrirtækin og blaðið um mann ársins í viðskiptalífinu. Frjáls verslun hefur komið út frá 1939.
Líkt og að framan segir verða álagningarskrár lagðar fram á föstudag. Hægt verður að nálagst álagningarseðla einstaklinga á þjónustuvefnum skattur.is en þeir sem óskuðu eftir álagningarseðli á pappír fá hann sendan í pósti eftir föstudag.
Álagningarskrá mun liggja frammi á starfsstöðvum ríkisskattstjóra dagana 24. júlí til 7. ágúst. Kærufrestur vegna álagningar 2015 er til 24. ágúst.