Kynnisferðir - Reykjavik Excursions hafa ráðið til sín tvo nýja lykilstjórnendur. Einar Bárðarson hefur verið ráðinn rekstrarstjóri Ferðaskrifstofu Kynnisferða og Ingvi Björn Bergmann fjármálastjóri félagsins.
Þá mun Þórarinn Þór markaðsstjóri Kynnisferða stýra nýju markaðs- og viðskiptaþróunarsviði félagsins. Einar, Ingvi Björn og Þórarinn heyra beint undir Kristján Daníelsson, framkvæmdastjóra Kynnisferða.
Einar Bárðarson mun stýra ferðaskrifstofu Kynnisferða sem er ein af fjórum rekstrarstoðum félagsins. Einar hefur verið forstöðumaður Höfuðborgarstofu frá árinu 2012 en hefur nú sagt starfi sínu lausu. Hann mun hefja störf í lok sumars hjá Kynnisferðum.
Ingvi Björn Bergmann verður fjármálastjóri Kynnisferða. Ingvi starfaði áður á endurskoðunarsviði Deloitte eða allt frá árinu 2004, þar sem hann var einnig meðeigandi. Ingvi starfaði jafnframt um tveggja ára skeið hjá Deloitte í Kaupmannahöfn. Hann útskrifaðist með Cand. Oecon gráðu frá Háskóla Íslands árið 2006 og fékk löggildingu til endurskoðunarstarfa árið 2009. Ingvi Björn hefur auk þess verið stundakennari við Háskóla Íslands í reikningsskilum. Ingvi Björn mun hefja störf hjá Kynnisferðum í ágústmánuði.
Þórarinn Þór hefur gegnt stöðu sölu- og markaðsstjóra Kynnisferða frá árinu 2007. Hann tekur nú við stjórn nýs sviðs markaðs- og viðskiptaþróunar sem mun vinna þvert á allar rekstrareiningar með áherslu á markaðsmál, ný viðskiptatækifæri, greiningar og verkefnastjórnun. Þórarinn hefur unnið í ferðaþjónustu um árabil eða frá árinu 2000. Þórarinn Þór er með BS gráðu í ferðamálafræði frá Háskóla Íslands.