Rannsókn samkeppniseftirlitsins á ætlaðri misnotkun MS á markaðsráðandi stöðu sinni miðar vel samkvæmt tilkynningu frá eftirlitinu. Fram kemur að henni sé hraðað eftir því sem kostur er.
„Samkeppniseftirlitið hefur nú til rannsóknar ætlaða misnotkun MS á markaðsráðandi stöðu sinni, en áfrýjunarnefnd samkeppnismála lagði fyrir eftirlitið að rannsaka málið frekar þar sem að MS hefði látið undir höfuð leggjast að láta eftirlitinu í té mikilvæg gögn við fyrri rannsókn málsins,“ segir í tilkynningunni. Þá kemur fram að einnig sé til rannsóknar hvers vegna umrædd gögn voru ekki lögð fyrir eftirlitið við fyrri rannsókn, og tekið fram að viðurlög geti legið við því að halda upplýsingum frá eftirlitinu.
Samkeppniseftirlitið sektaði MS um 370 milljónir fyrir samkeppnisbrot gegn Kú í september síðastliðnum. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála vísaði málinu aftur til Samkeppniseftirlitsins til rannsóknar í desember á þeim forsendum að MS hafði ekki lagt fram tiltekin gögn, samning við Kaupfélag Skagfirðinga, sem þýðingu gætu haft við rannsókn málsins.
Frétt mbl.is: Rannsaki nánar hugsanlega misnotkun MS
Ólafur Stephensen gagnrýndi á dögunum hve langan tíma rannsókn málsins tæki og var harðorður í garð MS í erindi sínu til Páls Gunnars Pálssonar, forstjóra eftirlitsins. „Það er óþolandi að markaðsráðandi fyrirtæki komist upp með að draga málsmeðferð á langinn með því að leyna gögnum fyrir Samkeppniseftirlitinu eins og MS gerði í þessu máli,“ segir í erindinu.
Þá benti Ólafur á að smærri samkeppnisaðilar „hefðu einfaldlega ekki bolmagn til að bíða niðurstaðna samkeppnisyfirvalda mánuðum og jafnvel árum saman“.
Frétt mbl.is: Rekur á eftir Samkeppniseftirlitinu
Ari Edwald, forstjóri MS, sendi í kjölfarið frá sér tilkynningu þar sem Ólafur er sagður koma fram með rangfærslur og rætnar ásakanir.
„Frá öndverðu var Samkeppniseftirlitið upplýst um allt samstarf Mjólkursamsölunnar, Kaupfélags Skagfirðinga og Mjólku. Þrátt fyrir lögbundna rannsóknarskyldu Samkeppniseftirlitsins óskaði stjórnvaldið hins vegar aldrei eftir samningi þessara aðila þar að lútandi. Vegna fyrri mála stóðu forsvarsmenn Mjólkursamsölunnar raunar í þeirri trú að Samkeppniseftirlitið hefði nefndan samning undir höndum. Svo reyndist ekki vera. Áfrýjunarnefnd samkeppnis-mála gerði athugasemd við þennan ágalla á rannsókn Samkeppniseftirlitsins og ógilti ákvörðun þess. Enga umfjöllun er að finna í forsendum áfrýjunarnefndar þess efnis að Mjólkursamsalan hafi leynt gögnum við rannsókn málsins, enda væri það ekki sannleikanum samkvæmt,“ sagði m.a. í tilkynningu MS.
Frétt mbl.is: „Rætnar ásakanir og rangfærslur“