Sviptingar á samheitalyfjamarkaði

Af vef Actavis

Ekki er enn ljóst hvort af yfirtöku ísraelska lyfjafyrirtækisins Teva á samheitahluta Allergan, áður Actavis, verður en Teva hefur undanfarna mánuði reynt að kaupa helsta keppinaut fyrirtækisins á samheitalyfjamarkaði, Mylan, án árangurs.

Teva, sem er stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims, er reiðubúið til að greiða 40-45 milljarða Bandaríkjadala, sem svarar til 5400-6100 milljarða íslenskra króna, fyrir samheitalyfjahluta Allergan, samkvæmt heimildum Reuters fréttastofunnar og Wall Street Journal. Tilboðið var lagt fram í kjölfar þess að hollensk stofnun, sem tengist Mylan, keypti ráðandi hlut í Mylan og kom þar í veg fyrir óvinveitt yfirtökutilboð Teva í fyrirtækið.

En þrátt fyrir að Teva-Mylan samruni hafi verið ráðandi í umræðunni á samheitalyfjamarkaði þá er talið að yfirtaka á Allergan hafi verið stjórnendum Teva ofar í huga, segir í frétt Reuters.

Sigurður Óli fyrrverandi forstjóri Actavis stýrir samheitalyfjahluta Teva

Forstjóri Teva, Erez Vigodman, er talinn hafa byrjað að nálgast Actavis í fyrra með mögulegan samruna í huga. Í júní í fyrra, þá nýlega kominn til starfa hjá Teva, réð Vigodman Sigurð Óla Ólafsson, sem áður var forstjóri Actavis, til starfa hjá Teva. Sigurður Óli er nú yfirmaður samheitalyfjahluta Teva.

Í apríl 2012 var til­kynnt um kaup banda­ríska lyfja­fyr­ir­tæk­is­ins Wat­son á Acta­vis en Actavis varð til árið 2004 eftir samruna Pharmaco og Delta.

Sig­urður Óli Ólafs­son var aðstoðarfor­stjóri Wat­son þegar gengið var frá kaupunum á Actavis. Wat­son keypti Acta­vis á 4,25 millj­arða evra. Sig­urður Óli starfaði hjá Acta­vis áður um sjö ára skeið. Hann gekk til liðs við Watson árið 2010, tveimur árum áður en varð af samrunanum árið 2012. 

Í maí í fyrra var tilkynnt um miklar breytingar á stjórnendateymi Actavis en þá ákvað for­stjóri fyr­ir­tæk­is­ins, Paul Bisaro, að láta af starf­inu og verða starf­andi stjórn­ar­formaður. Sig­urður Óli Ólafs­son, for­stjóri Acta­vis Pharma hætt­i og eins Guðbjörg Edda Eggerts­dótt­ir for­stjóri Acta­vis á Íslandi.

Um miðjan júní í ár var síðan tilkynnt um að Acta­vis plc, móður­fé­lag Acta­vis á Íslandi, hefði form­lega tekið upp nafnið Allerg­an. 

Allergan er alþjóðlegt lyfja­fyr­ir­tæki sem sér­hæf­ir sig í þróun, fram­leiðslu og sölu frum­lyfja, sam­heita­lyfja, lausa­sölu­lyfja og líf­tækni­lyfja. Höfuðstöðvar fyr­ir­tæk­is­ins eru í Dublin á Írlandi. Actavis keypti fyrirtækið, sem einkum er þekkt fyrir framleiðslu á bótoxi, í nóvember í fyrra á 65 milljarða Bandaríkjadala.

Hlutabréfin hafa lækkað um 10%

Óvissa um möguleg kaup Teva á Mylan hefur haft mikil áhrif á hlutabréfaverð þess fyrrnefnda. Þann 9. apríl sl. voru hlutabréf Teva skráð á 68,74 Bandaríkjadali í kauphöllinni í New York en í dag eru þau mun minna metin eða á 61,85% dali sem er yfir 10% lækkun á aðeins rúmum þremur mánuðum.

Fyrirtækin þrjú eru með svipaða markaðshlutdeild í Bandaríkjunum en Allergan er með 8% af bandaríska lyfjamarkaðnum, Mylan 9% og Teva 14%.

Í lok júní var tilkynnt um að framleiðsla lyfjaverksmiðjunnar á Íslandi yrði flutt til annarra framleiðslueininga samstæðunnar. „Þetta er gert í hagræðingarskyni og er liður í því að tryggja samkeppnishæfni fyrirtækisins á alþjóðavettvangi. Engar breytingar eru fyrirhugaðar á starfseminni á næstunni og mun þessi ákvörðun ekki hafa áhrif á störf hjá framleiðslueiningunni að svo stöddu en fyrstu breytinga fer að gæta í árslok 2016 þegar fyrstu áfangar í flutningi framleiðslunnar hefjast. Gert er ráð fyrir að starfsemi verksmiðjunnar á Íslandi verði lögð niður um mitt ár 2017,“ sagði í tilkynningu frá Allergan.
 
Margvíslegar breytingar á rúmum áratug

„Actavis hefur farið í gegnum margvíslegar breytingar á undanförnum árum með yfirtökum og samrunum innan lyfjageirans. Eftir nýlegan samruna við bandaríska frumlyfjafyrirtækið Allergan hefur fyrirtækið breyst frá því að vera öflugt samheitalyfjafyrirtæki í leiðandi alhliða lyfjafyrirtæki sem sinnir jöfnum höndum þróun, framleiðslu og markaðssetningu frumlyfja, samheitalyfja, lausasölulyfja og líftæknilyfja. Í dag er fyrirtækið orðið eitt af 10 stærstu lyfjafyrirtækjum í heimi, með starfsemi í 100 löndum og yfir 30.000 starfsmenn,“ segir á vef fyrirtækisins.
 
Þar segir ennfremur: „Að undanförnu hefur verið unnið að yfirgripsmikilli greiningu á framleiðslustarfsemi samstæðunnar víða um heim til þess að hámarka nýtingu á framleiðslugetu samstæðunnar. Niðurstöður þeirrar úttektar eru þær að aðrar verksmiðjur samstæðunnar hafa svigrúm til að taka við þeim vörum sem framleiddar eru á Íslandi. Með viðbótarnýtingu tækja og mannafla, hagstæðu rekstrarumhverfi og auknu framleiðslumagni eykst hagræðing til muna.

Fyrirtækið er í dag eitt af 10 stærstu lyfjafyrirtækjum í heimi með starfsemi í 100 löndum, um 30 þúsund starfsmenn, 40 verksmiðjur víða um heim og öfluga rannsóknar- og þróunargetu. Áætlaðar tekjur félagsins fyrir árið 2015 eru um 23 milljarðar dala. Höfuðstöðvar félagsins eru í Dublin á Írlandi en höfuðstöðvar stjórnunar í New Jersey í Bandaríkjunum. Félagið er skráð undir merkjum Allergan í kauphöllinni í New York.“

Af vef Actavis
Höfuðstöðvar Actavis í Hafnarfirði.
Höfuðstöðvar Actavis í Hafnarfirði.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK