Ekki er enn ljóst hvort af yfirtöku ísraelska lyfjafyrirtækisins Teva á samheitahluta Allergan, áður Actavis, verður en Teva hefur undanfarna mánuði reynt að kaupa helsta keppinaut fyrirtækisins á samheitalyfjamarkaði, Mylan, án árangurs.
Teva, sem er stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims, er reiðubúið til að greiða 40-45 milljarða Bandaríkjadala, sem svarar til 5400-6100 milljarða íslenskra króna, fyrir samheitalyfjahluta Allergan, samkvæmt heimildum Reuters fréttastofunnar og Wall Street Journal. Tilboðið var lagt fram í kjölfar þess að hollensk stofnun, sem tengist Mylan, keypti ráðandi hlut í Mylan og kom þar í veg fyrir óvinveitt yfirtökutilboð Teva í fyrirtækið.
En þrátt fyrir að Teva-Mylan samruni hafi verið ráðandi í umræðunni á samheitalyfjamarkaði þá er talið að yfirtaka á Allergan hafi verið stjórnendum Teva ofar í huga, segir í frétt Reuters.
Sigurður Óli fyrrverandi forstjóri Actavis stýrir samheitalyfjahluta Teva
Forstjóri Teva, Erez Vigodman, er talinn hafa byrjað að nálgast Actavis í fyrra með mögulegan samruna í huga. Í júní í fyrra, þá nýlega kominn til starfa hjá Teva, réð Vigodman Sigurð Óla Ólafsson, sem áður var forstjóri Actavis, til starfa hjá Teva. Sigurður Óli er nú yfirmaður samheitalyfjahluta Teva.
Í apríl 2012 var tilkynnt um kaup bandaríska lyfjafyrirtækisins Watson á Actavis en Actavis varð til árið 2004 eftir samruna Pharmaco og Delta.
Sigurður Óli Ólafsson var aðstoðarforstjóri Watson þegar gengið var frá kaupunum á Actavis. Watson keypti Actavis á 4,25 milljarða evra. Sigurður Óli starfaði hjá Actavis áður um sjö ára skeið. Hann gekk til liðs við Watson árið 2010, tveimur árum áður en varð af samrunanum árið 2012.
Í maí í fyrra var tilkynnt um miklar breytingar á stjórnendateymi Actavis en þá ákvað forstjóri fyrirtækisins, Paul Bisaro, að láta af starfinu og verða starfandi stjórnarformaður. Sigurður Óli Ólafsson, forstjóri Actavis Pharma hætti og eins Guðbjörg Edda Eggertsdóttir forstjóri Actavis á Íslandi.
Um miðjan júní í ár var síðan tilkynnt um að Actavis plc, móðurfélag Actavis á Íslandi, hefði formlega tekið upp nafnið Allergan.
Allergan er alþjóðlegt lyfjafyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun, framleiðslu og sölu frumlyfja, samheitalyfja, lausasölulyfja og líftæknilyfja. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Dublin á Írlandi. Actavis keypti fyrirtækið, sem einkum er þekkt fyrir framleiðslu á bótoxi, í nóvember í fyrra á 65 milljarða Bandaríkjadala.
Hlutabréfin hafa lækkað um 10%
Óvissa um möguleg kaup Teva á Mylan hefur haft mikil áhrif á hlutabréfaverð þess fyrrnefnda. Þann 9. apríl sl. voru hlutabréf Teva skráð á 68,74 Bandaríkjadali í kauphöllinni í New York en í dag eru þau mun minna metin eða á 61,85% dali sem er yfir 10% lækkun á aðeins rúmum þremur mánuðum.
Fyrirtækin þrjú eru með svipaða markaðshlutdeild í Bandaríkjunum en Allergan er með 8% af bandaríska lyfjamarkaðnum, Mylan 9% og Teva 14%.
Í lok júní var tilkynnt um að framleiðsla lyfjaverksmiðjunnar á Íslandi yrði flutt til annarra framleiðslueininga samstæðunnar. „Þetta er gert í hagræðingarskyni og er liður í því að tryggja samkeppnishæfni fyrirtækisins á alþjóðavettvangi. Engar breytingar eru fyrirhugaðar á starfseminni á næstunni og mun þessi ákvörðun ekki hafa áhrif á störf hjá framleiðslueiningunni að svo stöddu en fyrstu breytinga fer að gæta í árslok 2016 þegar fyrstu áfangar í flutningi framleiðslunnar hefjast. Gert er ráð fyrir að starfsemi verksmiðjunnar á Íslandi verði lögð niður um mitt ár 2017,“ sagði í tilkynningu frá Allergan.
Margvíslegar breytingar á rúmum áratug
„Actavis hefur farið í gegnum margvíslegar breytingar á undanförnum árum með yfirtökum og samrunum innan lyfjageirans. Eftir nýlegan samruna við bandaríska frumlyfjafyrirtækið Allergan hefur fyrirtækið breyst frá því að vera öflugt samheitalyfjafyrirtæki í leiðandi alhliða lyfjafyrirtæki sem sinnir jöfnum höndum þróun, framleiðslu og markaðssetningu frumlyfja, samheitalyfja, lausasölulyfja og líftæknilyfja. Í dag er fyrirtækið orðið eitt af 10 stærstu lyfjafyrirtækjum í heimi, með starfsemi í 100 löndum og yfir 30.000 starfsmenn,“ segir á vef fyrirtækisins.
Þar segir ennfremur: „Að undanförnu hefur verið unnið að yfirgripsmikilli greiningu á framleiðslustarfsemi samstæðunnar víða um heim til þess að hámarka nýtingu á framleiðslugetu samstæðunnar. Niðurstöður þeirrar úttektar eru þær að aðrar verksmiðjur samstæðunnar hafa svigrúm til að taka við þeim vörum sem framleiddar eru á Íslandi. Með viðbótarnýtingu tækja og mannafla, hagstæðu rekstrarumhverfi og auknu framleiðslumagni eykst hagræðing til muna.
Fyrirtækið er í dag eitt af 10 stærstu lyfjafyrirtækjum í heimi með starfsemi í 100 löndum, um 30 þúsund starfsmenn, 40 verksmiðjur víða um heim og öfluga rannsóknar- og þróunargetu. Áætlaðar tekjur félagsins fyrir árið 2015 eru um 23 milljarðar dala. Höfuðstöðvar félagsins eru í Dublin á Írlandi en höfuðstöðvar stjórnunar í New Jersey í Bandaríkjunum. Félagið er skráð undir merkjum Allergan í kauphöllinni í New York.“