Teva kaupir Actavis

Teva í Kanada
Teva í Kanada Af vef Teva

Ísraelska lyfjafyrirtækið Teva hefur tilkynnt um kaup á samheitalyfjahluta Allergan, sem áður hét Actavis, á 40,5 milljarða Bandaríkjadala. Það svarar til tæplega 5.500 milljarða króna. 

Teva mun greiða 33,75 milljarða dala í peningum en 6,75 milljarðar dala verða greiddir með hlutabréfum í Teva.

Á sama tíma og Teva, sem er stærsti samheitalyfjaframleiðandi heims, tilkynnti um kaupin á samheitalyfjaframleiðslu Allergan var greint frá því að fyrirtækið hefði fallið frá kaupumá keppninautnum Mylan. Teva bauð 40,1 milljarð dala í Mylan í apríl en um óvinveitt yfirtökutilboð var að ræða.

Á fimmtudag var greint frá því að hollensk stofnun, sem tengist Mylan, ætlaði sér að koma í veg fyrir yfirtökuna með kaupum á helming alls hlutafjár í Mylan.

Í tilkynningu segir forstjóri Teva, Erez Vigodman, að yfirtakan komi á sama tíma og staða Teva sé sterkari en nokkru sinni fyrr. Hann segir Teva og Allergan Generics eiga margt sameiginlegt.

Forstjóri Teva, Erez Vigodman, er talinn hafa byrjað að nálgast Actavis í fyrra með mögulegan samruna í huga. Í júní í fyrra, þá nýlega kominn til starfa hjá Teva, réð Vigodman Sigurð Óla Ólafsson, sem áður var forstjóri Actavis, til starfa hjá Teva. Sigurður Óli er nú yfirmaður samheitalyfjahluta Teva.

Í apríl 2012 var til­kynnt um kaup banda­ríska lyfja­fyr­ir­tæk­is­ins Wat­son á Acta­vis en Actavis varð til árið 2004 eftir samruna Pharmaco og Delta.

Sig­urður Óli Ólafs­son var aðstoðarfor­stjóri Wat­son þegar gengið var frá kaupunum á Actavis. Wat­son keypti Acta­vis á 4,25 millj­arða evra. Sig­urður Óli starfaði hjá Acta­vis áður um sjö ára skeið. Hann gekk til liðs við Watson árið 2010, tveimur árum áður en varð af samrunanum árið 2012. 

Í maí í fyrra var tilkynnt um miklar breytingar á stjórnendateymi Actavis en þá ákvað for­stjóri fyr­ir­tæk­is­ins, Paul Bisaro, að láta af starf­inu og verða starf­andi stjórn­ar­formaður. Sig­urður Óli Ólafs­son, for­stjóri Acta­vis Pharma hætt­i og eins Guðbjörg Edda Eggerts­dótt­ir for­stjóri Acta­vis á Íslandi.

Um miðjan júní í ár var síðan tilkynnt um að Acta­vis plc, móður­fé­lag Acta­vis á Íslandi, hefði form­lega tekið upp nafnið Allerg­an. 

Allergan er alþjóðlegt lyfja­fyr­ir­tæki sem sér­hæf­ir sig í þróun, fram­leiðslu og sölu frum­lyfja, sam­heita­lyfja, lausa­sölu­lyfja og líf­tækni­lyfja. Höfuðstöðvar fyr­ir­tæk­is­ins eru í Dublin á Írlandi. Actavis keypti fyrirtækið, sem einkum er þekkt fyrir framleiðslu á bótoxi, í nóvember í fyrra á 65 milljarða Bandaríkjadala.

Það var síðan í júní sl. sem Actavis plc, móðurfélag Actavis á Íslandi tók formlega upp nafnið Allergan og í lok júní var greint frá því að lyfjaframleiðslan yrði flutt frá Íslandi til annarra starfstöðva. 

Nánar má lesa um breytingarnar hér

Allergan hefur sent frá sér tilkynningu varðandi söluna

Samkvæmt samkomulaginu, mun Teva taka yfir alla alþjóðlega samheitalyfjastarfsemi fyrirtækisins sem áður var Actavis, þar á meðal sölueiningar fyrirtækisins á samheitalyfjasviði í Bandaríkjunum og alþjóðlega, alla þróunar- og framleiðslustarfsemi sem snýr að samheitalyfjum, sölustarfsemi fyrirtækisins á sviði lausasölulyfja, sem og Medis, dótturfélag Allergan sem selur lyf og lyfjahugvit til annarra lyfjafyrirtækja.

„Um er að ræða stefnubreytingu hjá móðurfélaginu en eftir nýlegan samruna Actavis og Allergan varð fyrirtækið leiðandi alhliða lyfjafyrirtæki sem sinnir jöfnum höndum þróun, framleiðslu og markaðssetningu frumlyfja og samheitalyfja. Allergan hyggst hins vegar nú einbeita sér að uppbyggingu fyrirtækisins á sviði frumlyfja,“ samkvæmt tilkynningu sem barst klukkan 12:07.

„Hjá starfsstöð Actavis á Íslandi er fjölbreytt alþjóðleg starfsemi, m.a. á sviði lyfjaþróunar fyrir alþjóðamarkaði, skráningarsvið sem ber ábyrgð á skráningum og viðhaldi markaðsleyfa út um allan heim, alþjóðlegt gæðasvið og fjármálasvið, auk sölu- og markaðssviðs sem sinnir Íslandsmarkaði, sem og ýmis stoðsvið. Þá eru hér á landi höfuðstöðvar Medis. Í dag eru um 700 starfsmenn hjá fyrirtækinu á Íslandi,“ segir enn fremur í tilkynningu.

Sigurður Óli Ólafsson stýrir samheitalyfjahluta Teva.
Sigurður Óli Ólafsson stýrir samheitalyfjahluta Teva. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Actavis í Hafnarfirði verður nú hluti af Teva en Actavis …
Actavis í Hafnarfirði verður nú hluti af Teva en Actavis hefur gengið í gegnum marga samruna og yfirtökur undanfarinn áratug.
Actavis hyggst flytja starfsemi úr landi.
Actavis hyggst flytja starfsemi úr landi. mbl.is/Rósa Braga
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK