Það er ekki á færi allra sem vilja að fara í veiðiferð til Afríku. Það kostar 49 þúsund dollara, eða um 6,6 milljónir króna, að veiða ljón í Suður Afríku eða Zimbawe, á vegum Luxury Hunt. Það kostar rúma 35 þúsund dollara, eða um 4,7 milljónir króna, að veiða fíl í Zimbabwe á vegum African Sky Hunting. Flugmiði til Afríku er ekki innifalinn.
Veiðiferðirnar sem nefndar eru hér að ofan eru tíu daga langar. Gist er í skálum og leiðsögumenn aka veiðimönnum um svæðið. Þegar dýrið er skotið sér leiðsögumaðurinn um að flá það og útbúa til þess að hægt sé að eiga gripinn.
„Það er komið fram við þig eins og kóng,“ hefur CNN Money eftir Mick Jameson, sem starfar sem ráðgjafi í Bandaríkjunum fyrir afrískar veiðiferðaskrifstofur. Þá segir hann að allir vilji fara aftur í aðra ferð.
Hann segist sjálfur ekki eiga efni á dýrum ferðum þar sem ljón eða fílar eru veiddir. Í staðinn veiðir hann t.d. antilópur og villisvín. Slíkar ferðir eru oft í boði á einkajörðum og kosta um 7.500 dollara, eða um eina milljón króna.
Þá segir Jameson að skattar séu oftast ekki innifaldir í verðinu og eru ferðirnar því nokkuð dýrari þegar uppi er staðið.
Líkt og fram hefur komið hafa tveir veiðiþjófar verið ákærðir fyrir drápið á ljóninu Cecil. Þeir tóku þátt í að aðstoða auðugan bandarískan tannlækni við drápið en Cecil var eitt ástsælasta ljón Afríku og þekktur fyrir þykkan dökkan makka.
Tannlæknirinn borgaði 55 þúsund dollara, eða um 7,4 milljónir fyrir drápið.
Hann var 13 ára gamall þegar hann var lokkaður út úr þjóðgarði með beitu og skotinn með boga og ör. Talið er að það hafi tekið Cecil um 40 klukkustundir að deyja.