Áform um hótel við Lækjargötu, þar sem útibú Íslandsbanka hefur verið til húsa, eru ekki ný af nálinni. Árið 2005 voru kynntar hugmyndir af þáverandi aðstandendum verkefnisins; þróunarfélaginu Þyrpingu, Glitni og fleiri aðilum, en þær hlutu ekki náð fyrir augum borgaryfirvalda. Unnar voru nýjar tillögur 2007, en þá voru Flugleiðahótelin (nú Icelandair-hotels) komin að verkefninu. Þóttu þær hugmyndir of stórtækar og arkitektar beðnir að taka meira tillit til umhverfisins.
Enn tóku arkitektar til við breytingar, sem kynntar voru skömmu fyrir hrunið 2008. Áformin voru síðan lögð til hliðar og Íslandsbanki sagði sig frá verkinu, en forverinn, Glitnir, hafði hugmyndir um að banki yrði starfræktur á fyrstu hæð hótelsins.
Þessi þróun á útlitinu sést nánar á myndunum hér að ofan, en teikningarnar voru allar unnar af THG Arkitektum, að beiðni Þyrpingar og samstarfsaðila félagsins. Til samanburðar er birt mynd hér til hliðar af tillögu Teiknistofunnar Glámu-Kím sem bar sigur úr býtum í nýlegri samkeppni núverandi aðila hótelverkefnisins, Íslandshótela og Minjaverndar.
Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, var formaður skipulagsráðs á árunum 2008-2010 og hefur átt sæti í umhverfis- og skipulagsráði frá stofnun ráðsins árið 2010. Hann segir athyglisvert hvernig hugmyndir um hótelbyggingar við Lækjargötu hafa tekið breytingum í tímans rás. Ýmsar tillögur hafi verið lagðar fyrir skipulagsráð og hugnast Júlíusi ekki nýjasta tillagan. Telur hana ekki taka nægt tillit til þeirrar byggðar sem fyrir er í miðbæ Reykjavíkur.
Júlíus hyggst taka málið upp þegar ráðið kemur úr sumarfríi og vonast til þess að hótelbyggingunni verði breytt þannig að hún falli betur inn í umhverfið. Þá hefur Júlíus óskað eftir því við formann ráðsins, Hjálmar Sveinsson, að fundað verði með þeim fornleifafræðingum sem staðið hafa fyrir uppgreftri í grunni fyrirhugaðs hótels. Vill Júlíus að hugað verði vel að varðveislu þeirra muna sem fundist hafa.
Júlíus sat ekki í skipulagsráði árið 2005 en árið eftir settist hann í borgarstjórn. „Ég veit að skipulagsráð tók ekki vel í þessar fyrstu hugmyndir,“ segir hann en svipað var upp á teningnum 2007. Þá beindi skipulagsráð því til arkitektanna að láta útlitið taka mið af næsta umhverfi.
„Gömlu húsin í kring, eins og Iðnaðarmannahúsið, Iðnó og Miðbæjarskólinn, eru miðað við byggingartímann óvenju stór hús en engu að síður vel gerð og í raun fínleg, eins og gluggaumgjarðir og annað. Þar er ákveðinn útgangspunktur sem maður hefði viljað sjá í núverandi tillögu. Það er mikilvægt að vel takist til og að ekki verði unnið í einhverjum asa undir mikilli pressu. Ég skil vel að lóðarhafi vilji byggja sem fyrst og skipulagsráð þarf að hafa það í huga. Aðalatriðið er þó að vanda sig og við megum ekki gleyma okkur í einhverjum flýti,“ segir Júlíus Vífill, sem telur að vinna þurfi vinningstillöguna í nýjustu samkeppninni mun betur.
„Þó að margt sé þarna vel útfært þá þurfa menn að setjast aftur að teikniborðinu og koma með nýjar hugmyndir áður en ég get fallist á þær. Samkeppnin útaf fyrir sig er ekki bindandi fyrir umhverfis- og skipulagsráð,“ segir Júlíus Vífill.
Halldór Guðmundsson hjá THG Arkitektum segist sjálfur vera hrifnastur af fyrstu tillögunni, útfrá sjónarhóli arkitekts. Teiknistofan hafi komið að gerð deiliskipulagstillögu fyrir Þyrpingu og samstarfsaðila. Sömuleiðis hafi honum þótt tillagan frá 2007 verið vel heppnuð.
„Borgarskipulaginu fannst þessar tillögur hins vegar of stórar og ekki passa inn í miðbæinn. Við vorum beðin að gjörbreyta útlitinu og hafa það meira í takt við eldri byggingar í kring,“ segir Halldór, og bendir á að tillaga þeirra frá 2008 hafi falið í sér mun stærra hús en núverandi áform séu um við Lækjargötu. Þá hafi verið gert ráð fyrir að lóðirnar við Vonarstræti 4 og Lækjargötu 12 yrðu sameinaðar, vegna áætlana um að fyrrnefnda lóðin yrði keypt af borginni.
Halldór og hans stofa tók ekki þátt í hugmyndasamkeppni Íslandshótela og Minjaverndar. Hann segist ekki vilja tjá sig mikið um vinningstillöguna, hún sé þó ekki mikið í takt við eldri húsin í kring en með því sé hann ekkert að segja að tillögur THG Arkitekta hafi verið eitthvað betri. Þær beri keim af þenslunni sem þá var uppi.
„Á árunum fyrir hrun var allt svo stórt og mikið og umhverfið allt annað en það er í dag.“