„Frestun breytir engu“

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. mbl.is/Árni Sæberg

„Frestun á málinu er ákveðin viðurkenning á því að Landsbankinn sjái að þetta er ekki rétt ákvörðun í dag en fyrir mér er þetta ekki heldur rétt ákvörðun seinna,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar. 

Líkt og mbl greindi frá í dag hefur Landsbankinn ákveðið að fresta hönn­un­ar­sam­keppni um fyr­ir­hugaða ný­bygg­ingu Lands­bank­ans sem hefjast þann 17. ágúst nk. Það er meðal ann­ars gert til að fara yfir þau sjón­ar­mið sem fram hafa komið á síðustu vik­um.

Vest­manna­eyja­bær, sem er hlut­hafi í bank­an­um, hefur sent bréf til stjórn­ar­for­manns Lands­bank­ans og kallað eftir gögn­um sem tengj­ast fyr­ir­huguðum fram­kvæmd­um. 

Eigendur eiga að marka stefnu bankans

„Þessi frestun Landsbankans breytir á engan hátt ákvörðununum okkar um mikilvægi þess að eigendur marki stefnu bankans. Við komum til með að halda okkur við þá kröfu að haldinn verði hluthafafundur og að þar verði tekin stefna í þessu máli. Það dugar okkur ekki að málinu sé frestað,“ segir Elliði sem reiknar með því að nota hluthafafundinn til þess að móta stefnu um málið.

Ekki hefur verið boðað til hluthafafundar en í samtali við mbl sagði Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, að bankinn myndi gefa sér tíma til þess að fara yfir málið.

„Ef að það er röng ákvörðun núna að byggja höfuðstöðvar Landsbankans á dýrustu lóð landsins verður það líka röng ákvörðun seinna,“ segir Elliði. „Ég hef alltaf lýst yfir furðu minni á því að verið sé að byggja á dýrustu lóð landsins.“

Elliði segist vilja sjá gögn og upplýsingar um hvort arðsemi framkvæmda á öðrum lóðum en við Austurhöfn hafi verið skoðaðar. „Þessi frestun breytir engu um kröfu okkar um aðgengi að gögnum og kröfu okkar um hluthafafund,“ segir hann.

Vonast eftir „stóra stoppinu“

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, hefur einnig gagnrýnt áformin og telur Landsbankann frekar eiga að greiða meiri arð í ríkissjóð. 

Hún fagnar því að Landsbankinn ætli að fresta málinu. „Það hlýtur að þurfa að kalla saman hluthafafund í bankanum til þess að taka svona stórar ákvarðanir,“ segir hún. „Ég vona bara að síðan komi stóra stoppið í málið og að þeir ráðstafi þessum fjármunum með öðrum hætti því það er hægt að hagræða í rekstri húsnæðis á mun ódýrari máta en þeir eru að boða,“ segir hún. „Það er hlutverk ríkisbanka að greiða annað hvort meiri arð til ríkisins eða lækka vexti til hagsbóta fyrir landsmenn.“

„Ég vona að einhver alvara sé á bak við þessa yfirlýsingu en að ekki sé bara verið að kaupa sér stundarfrið,“ segir hún. Vigdís hrósar þá jafnframt hluthöfum sem hafa látið í heyra. 

Vigdís Hauksdóttir:
Vigdís Hauksdóttir: mbl.is/Rax
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK