Ákveðið hefur verið að fresta hönnunarsamkeppni um fyrirhugaða nýbyggingu Landsbankans sem hefjast átti síðar í þessum mánuði. Það er meðal annars gert til fara yfir þau sjónarmið sem fram hafa komið á síðustu vikum. Nánar verður gerð grein fyrir framhaldinu opinberlega þegar frekari ákvarðanir liggja fyrir.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef bankans.
Hönnunarsamkeppnin átti að hefjast þann 17. ágúst nk. „Það hefur bara verið ákveðið að fresta samkeppninni og fara yfir það sem hefur komið fram í umræðunni. Það hefur ekkert annað verið ákveðið á þessu stigi,“ segir Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans í samtali við mbl. „Það hafa margir tekið til máls og sett fram sín sjónarmið og það er bara sjálfsagt mál að fara yfir þau,“ segir hann.
Bankaráð tók ákvörðunina um að fresta samkeppninni að vel athuguðu máli segir Kristján.
Ekki hefur verið boðað til hluthafafundar um málið og aðspurður hvenær ákvörðunar eða frekari frétta af málinu sé að vænta segir Kristján að Landsbankinn muni gefa sér nauðsynlegan tíma. „Við þurfum bara að draga andann djúpt og skoða málið vel,“ segir hann.
„Það er aldrei neitt alveg útilokað,“ segir Kristján aðspurður hvort væntanleg staðsetning verði mögulega endurskoðuð. „En það liggur ekkert fyrir um það og þetta er bara það sem hefur verið ákveðið,“ segir Kristján. „Í ljósi umræðunnar töldum við rétt að staldra við og bíða með samkeppnina.
Líkt og fram hefur komið tók bankaráð Landsbankans ákvörðun um að ráðast í nýbyggingu við Austurhöfn í Reykjavík. Kostnaður við bygginguna með lóðarkaupum er áætlaður um átta milljarðar króna.
Fjölmargir hafa gagnrýnt áformin, þ.á.m. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sem hefur kallað áformin „ögrun“ og sagt það vera undarlegt ef banki sem er í almannaeigu, ætlar að fara gegn því sem virðist vera augljós vilji eigendanna - almennings og fulltrúa hans.
Þá lagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, til að sleggjum yrði dreift til allra landsmanna til þess að brjóta nýbygginguna niður og festa húsbrotið á filmu sem listgjörning undir heitinu: „Meira en nóg af þessari helvítis vitleysu.“
Vestmannaeyjabær, sem er hluthafi í bankanum, hefur jafnframt sent bréf til stjórnarformanns Landsbankans þar sem kallað er eftir gögnum sem tengjast fyrirhuguðum framkvæmdum.