„Þetta er mjög skynsamleg og ábyrg afstaða hjá stjórnendum bankans,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, um þá ákvörðun að fresta hönnunarsamkeppni um fyrirhugaða nýbyggingu Landsbanka Íslands síðar í ágúst.
Frétt mbl.is: Landsbankinn frestar hönnunarsamkeppni
Í samtali við Morgunblaðið í júlí sagði Guðlaugur m.a. að það væri „algjörlega út í hött“að byggja nýjar höfuðstöðvar við hlið Hörpunnar við Austurhöfn. „Menn nefna að það sé hagkvæmt að hafa starfsemina á einum stað en á sama tíma kaupa þeir dýrustu lóð á Íslandi og hafa hafnað ódýrari lóðum. Hagræðingarrökin eiga því augljóslega ekki við,“ sagði Guðlaugur m.a. við það tilefni.
Frétt mbl.is: Óafturkræf mistök við höfnina
„Í mínum huga sneri þetta ekki aðeins að Landsbankanum. Ég held að það skipti líka máli að við ígrundum mjög vel hvað við gerum við þetta svæði. Þetta er afskaplega mikilvægt svæði fyrir miðborgina og þ.a.l. landið allt,“ segir Guðlaugur. Hann segir marga hafa rætt málið við sig og fólk sé nú að opna augun fyrir skipulagslegu mikilvægi svæðisins.
Hann bendir á að Harpa hafi stækkað miðborgina mikið, en í henni sé mikið líf sem fyrst og fremst komi til af mikilli aukningu ferðamanna. „Þetta er tækifæri sem verður að nýta. Við sjáum rúturnar fara úr miðborginni að Kringlunni og Smáralind, þannig að maður veltir fyrir sér hvort ekki sé kominn tími til að hafa aukna verslun eins og við sjáum þar á þessu svæði,“ segir Guðlaugur.
„Með fullri virðingu fyrir bankastarfsemi er þetta ekkert ósvipað því og við myndum setja annan seðlabanka hinum megin við Hörpu. Þetta er hús sem er lokað að lágmarki einn þriðja ársins.“ Hann ítrekar að ákvörðun bankans sé skynsamleg og nú þurfi að fara vel yfir hvernig fólk vilji sjá þennan þátt miðborgarinnar. „Ef okkur tekst vel upp þar mun það hafa gríðarleg áhrif á ferðamennsku í borginni og þ.a.l. ferðamennsku á Íslandi.“