Margir sem nýta sér þjónustu Pink Iceland eru vanir því að þurfa að setja upp leikþátt á ferðalögum. Að annar aðilinn í sambandi þurfi að bíða handan hornsins á meðan hinn bókar sig inn á hótel. Að panta tvö rúm eða að haldast ekki í hendur. Pink Iceland sérhæfir sig í að skipuleggja ferðir fyrir hinsegin ferðamenn.
Fyrirtækið var stofnað árið 2011 og er í eigu Evu Maríu Lange, Birnu Hrannar Björnsdóttur og Hannesar Pálssonar. Pink Iceland á þó dýpri rætur, þar sem Eva María fékk hugmyndina er hún lærði ferðamálafræði og fékk það verkefni að stofna fyrirtæki. Hugmyndinni var þó komið fyrir ofan í skúffu í nokkur ár, þar til Eva María fór að starfa í ferðaþjónustu og tók eftir fjölmörgum fyrirspurnum um hinsegin senuna á Íslandi.
Síðan hefur fyrirtækið vaxið jafnt og þétt og býður upp á fjölmargar dagsferðir og dagskrá í kringum Hinsegin daga og skipuleggur brúðkaup. Á þessu ári eru brúðkaupin á vegum Pink Iceland um sjötíu talsins.
Birna Hrönn segir brúðkaupin vera af öllum stærðum og gerðum. „Þetta getur verið allt frá því að vera bara parið sjálft sem hefur ekki áhuga á veislu og er kannski að flýja veruleika þar sem sambandið er ekki samþykkt en kemur hingað til að leita eftir viðurkenningu. Síðan geta þetta verið risastórar veislur með miklum fjölda og tilstandi,“ segir Birna.
Pink Iceland sér þá um að lóðsa tilvonandi hjón um landið þar sem fólk getur skoðað sig um, en Birna segir langflesta kjósa að hafa athöfnina úti í náttúrunni. „Fólk sem vill gifta sig á Íslandi er oft að leita eftir einhverju öðruvísi,“ segir hún og bætir við að flestir velji að hafa athöfnina við foss. „Þeir þykja mjög rómantískir,“ segir hún.
Með vaxandi starfsemi hefur fyrirtækið einnig vakið athygli gagnkynhneigðra og Birna segir að í dag sé um helmingur allra brúðkaupskúnna gagnkynhneigt fólk.
Spurð hvort margir kúnnar komi frá löndum sem banni samkynja hjónabönd segir Birna að þeir séu vissulega nokkrir. „Fyrir suma hefur þetta enga lagalega þýðingu þar sem hvergi er hægt að skrá hjónabandið. Þetta er þá bara tilfinningaleg staðfesting á sambandinu og kannski til þess að sýna fjölskyldunni að þetta sé í alvöru. Ekki bara vinasamband,“ segir hún.
Þá segir hún lögleiðingu hjónabanda í öðrum löndum ekki draga úr áhuga fólks á að koma til Íslands. „Þegar það er orðið að veruleika að fólk megi gifta sig getur það komið upp úr krafsinu að fólk vilji kannski jöklabrúðkaup á Íslandi,“ segir Birna, en flestir viðskiptavinir koma frá Bandaríkjunum sem lögleiddu nýlega samkynja hjónabönd.
Hún segir eitt helsta verkefni Pink Iceland vera að tryggja að ferðamönnum líði vel og mæti ekki fordómum þar sem margir séu vanir því að þurfa að setja upp leikþátt á ferðalögum. „Fólki er létt þegar það finnur að það megi bara vera það sjálft,“ segir hún.
Spurð hvort einhverjir viðskiptavinir hafi mætt fordómum á Íslandi segir Birna að starfsfólkið reyni að tryggja að það gerist ekki. Rétt ferðaþjónustufyrirtæki eru valin og þjónustan er kynnt fyrir þeim. „Langflestir eru opnir fyrir þessu en við heyrðum dæmi um stráka sem fóru í jeppaferð og voru ekkert að sýna að þeir væru saman. Síðan í lok ferðarinnar bendir leiðsögumaðurinn þeim á gay bar og síðasta ráðleggingin fólst í því að fara ekki þangað vegna þess að það væri hommabarinn,“ segir hún. „Reynslan var alveg skotin í kaf með þessu. Við þurfum að tryggja að þetta gerist ekki,“ segir hún.
Eins og flestir hafa orðið varir við voru Hinsegin dagar í síðustu viku og var hápunkturinn í Gleðigöngunni á laugardaginn. Pink Iceland hefur séð um að skipuleggja ferðir í tengslum við hátíðina. Þá er farið í dagsferðir í vikunni og fólki er hópað saman til þess að eiga kost á því að upplifa hátíðina með öðrum.
Birna segir óhætt að segja að aðsóknin í ferðirnar hafi vaxið ár frá ári en bætir þó við að Pink Iceland gæti þess að vaxa ekki of hratt, þar sem áherslan sé lögð á persónulega þjónustu. Það segir hún hafa borgað sig ef marka megi viðbrögð viðskiptavina.
„Ég held að þetta sé skemmtilegasta starf í heimi. Við erum alveg ótrúlega glöð og hamingjusöm með fyrirtækið,“ segir Birna að lokum.