Áhrifa kleinuhringjaæðisins sem hefur riðið yfir landið á síðustu dögum gætir víðar en á Dunkin' Donuts. Kleinuhringjasala í vagninum Dons Donuts hefur aukist um 100 prósent frá opnun fyrrnefnda staðarins. „Öll umræða um kleinuhringi er góð,“ segir Grétar Sigurðarson, eigandi Dons Donuts, sem fagnar samkeppninni.
Það fór líklega fram hjá fáum þegar fyrsti Dunkin' Donuts staðurinn á Íslandi var opnaður í síðustu viku þar sem stanslaus röð hefur verið við dyrnar en á fyrsta degi seldust um 12.000 kleinuhringir.
Grétar segir fólk hafa skiptar skoðanir á kleinuhringjum en tegundirnar á stöðunum tveimur eru ólíkar þar sem svokallaðir kökukleinuhringir eru í boði á Dons Donuts. Þeir eru litlir og viðskiptavinir geta valið á milli þriggja sósutegunda og tíu tegunda af kurli til þess að strá yfir kleinuhringina.
Vagninn var opnaðu fyrir tæpu ári síðan en hann er við Hlemm í Reykjavík, rétt á móti lögreglustöðinni. Þrátt fyrir sérstaklega góða sölu í síðastliðinni viku segir Grétar viðtökurnar hafa verið ótrúlegar frá fyrsta degi. „Þetta hefur verið algjör klikkun. Í vor keyptum við deig sem við áætluðum að myndi endast í rúma þrjá mánuði en það seldist upp á einum mánuði,“ segir Grétar.
Grétar rekur einnig fyrirtæki í Serbíu en þar fékk hann hugmyndina að Dons Donuts. „Það sat alltaf kona fyrir utan íbúðina mína í Serbíu og bakaði kleinuhringi í pínulitlu borði. Mér fannst lyktin svo góð og síðan þegar ég smakkaði þetta hjá henni var þetta alveg brjálæðislega gott,“ segir hann. „Ég ákvað því að taka hugmyndina hingað heim og hugsaði að þetta væri svo gott að það hlyti að ganga upp,“ segir hann.
Eftir velgengnina í vagninum stendur til að opna kleinuhringjastað á Dalvegi og Grétar vonast til þess að hægt verði að opna staðinn í september. Þar á að vera hægt að setjast niður og fá sér kleinuhring, kaffi og ís.