Á heimasíðu bandarísku streymiþjónustunnar Netflix segir að þjónustan sé væntanleg til Íslands á næstunni. Þjónustan hefur hingað til verið ólögleg á landinu þrátt fyrir að margir Íslendingar séu ákskrifendur í gegnum bandarísku útgáfuna.
Nútíminn greindi fyrst frá tilkynningunni á heimasíðu Netflix. Samfilm hefur samið við Netflix um dreifingu á efni en í samtali við Kjarnann í febrúar sagði Árni Samúelsson, forstjóri Samfilm, að það myndi skýrast síðsumars hvenær nákvæmlega opnað verður fyrir þjónustuna.
Í október á síðasta ári, þegar fyrst var greint frá þreifingum Netflix á landinu, benti Hörður Ágústsson, eigandi Maclands á að margir Norðurlandabúar kjósi frekar að nota áfram bandarísku útgáfuna þrátt fyrir að veitan hefji starfsemi í viðkomandi landi. Víða hafa þá leiðbeiningar verið birtar á netinu þar sem til dæmis Norðmenn eða Bretar leitast eftir að komast fram hjá þeirra eigin útgáfu - í þá bandarísku.
Netflix á Íslandi yrði því ekki það sama og bandaríska Netflix sem margir Íslendingar eiga að venjast þar sem úrvalið verður háð samningum afþreyingarrisans við myndrétthafa á Íslandi.