Tæplega 1.300 manns hafa boðað komu sína á fræðslufund á vegum Ungra fjárfesta á miðvikudaginn undir fyrirskriftinni „Hvernig byrja ég að fjárfesta?“ Þar mun Björn Berg Gunnarsson, fræðslustjóri VÍB, eignastýringarþjónustu Íslandsbanka, fræða ungt fólk um hvað það þarf að hafa í huga þegar það tekur fyrstu skrefin í fjárfestingum.
„Við erum virkilega ánægð með þessar frábæru viðtökur sem sýna augljóslega þann mikla áhuga sem ungt fólk hefur á fjárfestingum,“ segir Alexander Jensen Hjálmarsson, formaður Ungra fjárfesta, í samtali við mbl.is.
„Það varð því miður þannig í kjölfar efnahagshrunsins að fjárfestingar, sér í lagi í hlutabréfum, hafa verið litnar hálfgerðu hornauga. Það er auðvitað algjörlega rangt og ánægjulegt að það viðhorf sé að hverfa úr samfélaginu, að minnsta kosti á meðal ungs fólks.“
Hann segir mjög gaman að sjá þennan mikla áhuga sem fólk á öllum aldri hafi sýnt fundinum og félaginu sjálfu.
„Þessi viðburður er það sem við köllum fræðslufundur en þeir eru opnir öllum á meðan aðild að félaginu einskorðast við aldursbilið 18 til 35 ára. Við höfum fengið nokkrar aðildarbeiðnir frá fólki sem er yfir efri mörk þessa bils en við viljum benda þeim á Samtök sparifjáreiganda,“ nefnir hann.
Að mati Alexanders hefur aukinn fjöldi félaga í Kauphöllinni ýtt undir áhuga ungs fólks á hlutabréfafjárfestingum. Það sé mjög jákvætt.
„Ég á von á því að við fáum eina nýskráningu fyrir lok árs í Símanum og vonandi Advania í kjölfarið á næsta ári. Einnig munu breytingar á fjárfestingaheimildum lífeyrissjóðanna vonandi verða til þess að við sjáum nýskráningar á First North markaðinn fljótlega, en það gæti opnað fyrir möguleika almennings á að fjárfesta í minni fyrirtækjum sem hingað til hefur verið nánast ómögulegt fyrir aðra en fagfjárfesta.“
Fundurinn fer fram í Háskólanum í Reykjavík næsta miðvikudag, 19. ágúst, klukkan tólf.