Bjóða 1.360 milljónir í brunareit

Austurstræti 22 eða brunareiturinn svokallaði.
Austurstræti 22 eða brunareiturinn svokallaði. Eignamiðlun

Samningaviðræður milli Reykjavíkurborgar og fasteignafélasins Regins um kaup á brunareitnum svokallaða á horni Lækjargötu og Austurstrætis standa nú yfir. Tilboð Regins hljóðar upp á 1.360 milljónir króna en samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins frá borginni kostaði uppbyggingin á reitnum samtals 1.198 milljónir króna.

Samkvæmt því nemur mismunurinn 162 milljónum króna.

Brunabótamat eignarinnar er um 1,6 milljarðar króna. Félagið Jörundur ehf., sem eru í eigu Reykjavíkurborgar, er eigandi fasteignarinnar.

Eignin nefnist Austurstræti 22 og samanstendur af þremur húsum sem voru endurbyggð í sögulegum stíl eftir bruna árið 2007; Lækjargata 2, Austurstræti 22 og Austurstræti 22a.

Samtals eru húsin 2.386 fermetrar en þau eru í fullri útleigu og þar starfa m.a. fyrirtækin Grillmarkaðurinn, Lögmenn Lækjargötu, Nordic Store, Caruso veitingahús og Listaháskóli Íslands. Að meðaltali er lengd leigusamninga rúmlega fimm ár.

81 milljón króna árlegar leigutekjur

Samkvæmt tilkynningu frá Reginn eru tekjur miðað við núverandi leigusamninga rúmlega 81 milljón króna á ári. Við mat á verkefninu sem fjárfestingakosti taldi Reginn að leigutekjur af Austurstræti 22 muni styrkjast á næstu árum vegna staðsetningarinnar og eðli eignanna.

Ef af kaupunum verður er áætlað að EBITDA Regins hækki um tæplega tvö prósent miðað við útgefna rekstrarspá. Reginn áætlar að innan fárra ára muni afkoma verkefnisins styrkjast og að arðsemi verði yfir 6 prósent.

Tilboðið er háð fyrirvörum um niðurstöðu á laga- og skattalegri áreiðanleikakönnun. Fasteignasalan Eignamiðlun sér um söluferli eignarinnar fyrir hönd seljanda.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK