Eimskip missir Gullfoss

Gullfossi fagnað í Reykjavík 1915.
Gullfossi fagnað í Reykjavík 1915. mbl.is/Magnús Ólafsson

Eimskip hefur mótmælt notkun hvalaskoðunarfyrirtækisins Searanger á skipsnafninu Gullfoss allt frá því að skipið sigldi fyrst úr höfn í fyrra. Nú hefur innanríkisráðuneytið staðfest einkarétt Searanger á Gullfossi og má Eimskip þar af leiðandi ekki nota nafnið.

Samgöngustofa veitti Searanger ehf. einkarétt á skipsnafninu Gullfoss hinn 15. maí 2014 og Eimskip kærði ákvörðunina í júlí sama ár.

Eimskipafélagið telur sig hafa öðlast rétt til skipsheitisins með áratuga notkun þar sem útgerð á skipunum Gullfoss og Goðafoss var fyrst hafin árið 1915. Vísað er til þess að síðan hafi þeirri meginreglu verið haldið að nefna skip félagsins eftir fossum. 

Samofið sögu þjóðarinnar

Skipið Gullfoss sem kom hingað til lands árið 1915, og sigldi undir merkjum Eimskipafélagsins, var selt árið 1947. Árið 1950 var Eimskipafélaginu afhent nýtt skip sem tók við nafninu Gullfoss en áætlunarferðum þess var lokið árið 1973 eftir að það skemmdist við björgunarstörf í Vestmannaeyjagosinu. Í vöruhóteli Eimskipafélagsins er í dag safn með munum sem tengist Gullfossi. Þá er sérstakt fundarherbergi, Gullfossstofa, tileinkað Gullfossi og á göngum vöruhótelsins er að finna margar stækkaðar ljósmyndir sem tengjast Gullfossi.

Í kærunni vísaði Eimskipafélagið einnig til þess að saga íslenskrar þjóðar, Eimskipafélagsins og Gullfoss sé samofin í hugum almennings. Skipið hafi verið lífæð landsmanna á síðustu öld og að Gullfoss tengist mörgum helstu atburðum íslensks þjóðlífs síðustu 100 ár.

Samgöngustofa og ráðuneytið telja hins vegar að þetta breyti engu um þær reglur sem gilda um veitingu heimildar á einkarétti til skipsnafns. Nafnið hafi einfaldlega ekki verið skráð í skipaskrá.

Tenging við ferðamannastaðinn

Aðspurður hvers vegna nafnið Gullfoss hafi verið valið á skipið segir Sævar Matthíasson, eigandi, að það hafi verið gert til þess að tengja skipið við fossinn Gullfoss í augum ferðamanna. Þegar túristar eru að fletta upp íslenskum ferðamannastöðum fylgi hvalaskoðunarfyrirtækið þannig rétt á eftir fossinum. „Þetta var gert til þess að komast skrefi framar en aðrir inni á þessum leitarsíðum,“ segir Sævar og bætir við að túristar hafi sjaldnast þekkingu á sögu Eimskips á Íslandi.

Rétt eftir að Searanger fékk skipið segist Sævar hafa fengið mjög harðort bréf frá Eimskipi. „Þeir sögðust ætla í mál við okkur ef við myndum ekki skipta strax um nafn,“ segir hann og líkir því við að Golíat hafi verið að ráðast á Davíð.

„Þeir sofnuðu bara á verðinum. Þetta nafn var laust og við fengum einkaleyfi fyrir því,“ segir Sævar og bætir við að hann muni áfram standa vörð um nafnið ef úrskurðurinn verður kærður.

Ekki náðist í Eimskipafélagið við vinnslu fréttarinnar.

Gullfoss var fyrsta skip Eimskips og kom til landsins í …
Gullfoss var fyrsta skip Eimskips og kom til landsins í apríl 1915.
Sævar segir nafnið vera tilvísun til fossins, ekki Eimskips.
Sævar segir nafnið vera tilvísun til fossins, ekki Eimskips. Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK