Hvernig byrja ég að fjárfesta?

Það var þéttsetið á fundi Ungra fjárfesta í dag.
Það var þéttsetið á fundi Ungra fjárfesta í dag. mbl.is/Styrmir Kári

Það var smekkfullt í kennslustofu Háskólans í Reykjavík í dag þar sem Ungir fjárfestar fóru yfir grunnatriðin í fjárfestingum. Um 1.300 manns höfðu boðað komu sína á fundinn og svo virðist sem flestir hafi látið sjá sig. 

Björn Berg Gunn­ars­son, fræðslu­stjóri VÍB, eign­a­stýr­ing­arþjón­ustu Íslands­banka, hélt erindi um það sem fólk þarf að hafa í huga við fyrstu skref­in í fjár­fest­ing­um. „Fjárfesting er bara annað orð yfir sparnað,“ sagði Björn og vísaði til þess að fólki þætti hugtakið stundum framandi. 

Hann benti á að séreignalífeyrissparnaðurinn er fyrsta alvöru fjárfesting flestra. Samt væru margir ekkert að huga að ávöxtuninni „Þú ræður hvort sparnaðurinn sé á bankareikningi, í hlutabréfum eða skuldabréfum,“ sagði Björn og ráðlagði hverjum og einum að skoða sparnaðinn, meta ávöxtunina og breyta henni ef þörfin er til staðar.

Þá benti hann á að ungt fólk, sem er að feta sín fyrstu skref á vinnumarkaðnum, mætti frekar við flökti á sparnaðinum, og þar með meiri áhættu, en aðrir sem eru að nálagst ellilífeyrisaldurinn.

Verðum að leggja fyrir vegna vaxtakjara

„Á Íslandi eru hærri vextir en annars staðar. Það þýðir að við verðum að leggja fyrir vegna þess að lánin hér eru miklu dýrari en annars staðar. Munurinn á vöxtunum, þ.e. skuld og ávöxtun, er mikill,“ sagði Björn. Líkt og fram hefur komið hækkuðu stýrivextir Seðlabanka Íslands um 0,5% í morgun og eru meginvextir bankans því 5,5%, en það er með því allra hæsta sem þekkist í þróuðum ríkj­um.

Björn sagði mikilvægustu spurninguna í upphafi snúa að tilgangi fjárfestingarinnar. Hvort fjárfestingin væri hugsuð til skemmri eða lengri tíma og vísaði til þess til þess að ávöxtunin og vextir yrðu hærri eftir því sem bindingartíminn verður lengri.

Ef markmiðið er að ná sem bestri ávöxtun með sem minnstri áhættu, getur verið gott að skipta fjárfestingunni upp.

Næsta skref þegar hugað er að fjárfestingu er að leita sér ráðgjafar. Viðskiptabankarnir bjóða t.d. upp á slíka ráðgjöf en VÍB veitir skráðum félagsmönnum Ungra fjárfesta afslátt.

Dreifa áhættunni eða veðja á einn hest?

Þriðja skrefið sagði Björn felast í að velja það sem ætti að kaupa, t.d. hvort kaupa ætti stök bréf eða nýta sjóði. Hann benti á að kostirnir við sjóði væru margir fyrir fjárfesta sem eru að stíga sín fyrstu skref. Sjóðirnir bjóða upp á eignadreifingu og því er hægt að dreifa áhættunni. Þá er einnig þægilegt að eiga viðskipti með lágar fjárhæðir í sjóðum þar sem það getur verið dýrt að versla með stök bréf.

„Hlutabréf og skuldabréf hegða sér ekki eins og þess vegna dreifum við eignunum,“ sagði Björn og bætti við að áhættan dreifist frekar eftir því sem fyrirtækin að baki fjárfestingunni verða fjölbreyttari. Þá verður flóran enn breiðari ef áhættulítil ríkisskuldabréf fara með í grautinn. 

Ekki elta markaðinn

Eftir að búið er að ákveða þessi fyrstu skref þarf fjárfestir næst að skoða hvaða hópi fjárfesta hann langar að tilheyra. Hvort hann sé langtímafjárfestir eða spákaupmaður. Sá fyrri spáir í fjárfestingunni til lengri tíma en sá síðari kaupir vegna tímasetningarinnar.

Björn benti almennum fjárfestum í startholunum að forðast síðarnefnda hópinn. Það getur verið dýrt að kaupa og selja hlutabréf og gróðinn þarf því að vera mikill til þess að hægt sé að réttlæta greiddar þóknanir.

Þá varaði hann að lokum við því að elta markaðinn. „Ekki reikna með að ávöxtun muni endurtaka sig,“ sagði hann og vísaði til þess að frekari rök þyrftu að mæla með fjárfestingu en bara það að bréfin hefðu hækkað í verði.

Þá ætti einnig að hugsa sig um áður en bréfin eru seld aftur. Ástæðan mætti ekki bara vera sú að þau hefðu verið á niðurleið.

„Það er nauðsynlegt að vera þolinmóður. Það koma leiðinleg ár inn á milli hjá öllum fjárfestum,“ sagði Björn og bætti að lokum við að mikilvægt væri halda alltaf áfram að leita sér þekkingar.

Frétt mbl.is: 1.300 manns vilja læra að fjárfesta

Björn Berg Gunnarsson fræðslustjóri VÍB
Björn Berg Gunnarsson fræðslustjóri VÍB mbl.is/Ómar Óskarsson
Sjóðir eru sniðugir fyrir þá sem eru að taka sín …
Sjóðir eru sniðugir fyrir þá sem eru að taka sín fyrstu skref. Þórður Arnar Þórðarson
Björn Berg, fræðslustjóri VÍB, hélt erindi á fundinum.
Björn Berg, fræðslustjóri VÍB, hélt erindi á fundinum. Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK