Gjaldþrotaskiptum á Baðhúsinu er lokið og samtals námu lýstar kröfur 181,6 milljónum króna. Um 2,1 milljón króna fékkst greidd upp í kröfurnar og ekkert fékkst því greitt upp í kröfur er námu um 179,5 milljónum króna.
Þetta kemur fram í Lögbirtingarblaðinu í dag.
Baðhúsið var úrskurðað gjaldþrota í janúar á þessu ári, en eigandi þess var Linda Pétursdóttir. Fyrirtækið var stofnað árið 1994 þegar Linda var 24 ára gömul. Fyrst um sinn var Baðhúsið í Ármúla, síðar Brautarholti og í um eitt ár í Smáralind.
Þegar Baðhúsinu var lokað í desember á síðasta ári sagði Linda að rekstrargrundvellinum hefði verið kippt undan fyrirtækinu þegar loforð um afhendingartíma voru svikin auk þess sem húsnæðið hefði verið hálfklárað við afhendingu og iðnaðarmenn hefðu því sífellt verið andandi ofan í hálsmálið á viðskiptavinum.
Forstjóri Regins, eiganda húsnæðisins, sagði hins vegar að leigusamningi Baðhússins hefði verið rift vegna vanefnda.