„Þetta snýst um íslenska hönnun“

Eyjólfur Pálsson hefur áhyggjur af framtíð íslenskrar hönnunar í flugstöðinni.
Eyjólfur Pálsson hefur áhyggjur af framtíð íslenskrar hönnunar í flugstöðinni. mbl.is/Golli

„Ég held að þeir hjá Isavia hafi uppgötvað að þetta voru stór mistök hjá þeim. Þeir vita að það þarf að gera eitthvað og í sannleika sagt held ég að það verði gert eitthvað,“ segir Eyjólfur Pálsson eigandi verslunarinnar Epal í viðtali á Sprengisandi á Bylgjunni en verslunin fékk ekki áframhaldandi rekstrarleyfi eftir útboðsferli Isavia í flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Sjá frétt mbl.is: Flugstöðin eins og Eden í Hveragerði

Hann segir að málið snúist ekki um Epal heldur íslenska hönnun almennt. „Þetta snýst um íslenska hönnun. Ef einhver annar en við eru betri en við, þá er það í lagi,“ segir Eyjólfur um skortinn á íslenskum hönnunarverslunum í flugvallarrýminu.

Þörf á fleiri nytjahlutum

Aðspurður hver staða íslenskrar hönnunar sé, segir hann hana góða. „Við hjá Epal erum rosalega kröfuhörð og þar sem við erum einkafyrirtæki þá getum við sorterað út það sem okkur finnst gott. Við framkvæmum bara mat á því. Það getur verið erfitt að segja nei, en það er nauðsynlegt til að upphefja standardinn.“

„Við getum líka komið með góðar ábendingar til fólks. Við erum fagmenn og getum sagt fólki að laga hluti. Við getum til dæmis sagt við góða handverksmenn að þeir ættu frekar að vinna með góðum hönnuðum.“

Hann segir að íslenskri hönnun hafi fleytt fram undanfarin ár. „Hér áður fyrr fór ég einn til útlanda á sýningar og var einn á vappi um sýningarhallirnar. Nú eftir að netið kom til, og Listaháskólinn, er kominn miklu meiri skilningur á hönnun.“

Aðspurður hvað skorti í íslenskri hönnun, segir Eyjólfur það vera hönnun á nytjahlutum sem hann er sjálfur afskaplega hrifinn af. „Almennt er ég ánægður með stöðuna en ég vil sjá fleiri nytjahluti sem eru góð söluvara. Þetta snýst um að selja hluti og það er ekki til nóg af nytjahlutum. Þar eru tækifærin,“ segi Eyjólfur. 

Úr versluninni Epal.
Úr versluninni Epal. Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK