Yfirlitið frá Kauphöllinni er rautt í dag þar sem gengi nánast allra skráðra félaga hefur lækkað í morgun. Það er í takt við þróunina annars staðar þar sem evrópskar hlutabréfavísitölur lækkuðu við opnun markaða í morgun eftir miklar lækkanir á markaði í Asíu í nótt.
Innan einnar klukkustundar hafði íslenska úrvalsvísitalan OMXI8 lækkað um 1,73 prósent. Til samanburðar hefur norræna vísitalan fallið um 3,13 prósent þegar þetta er skrifað og sú danska um 3,9 prósent. Þá hafði sænska útvalsvísitalan fallið um 2,48 prósent og FTSE vísitalan í London um 2,71 prósent.
Hlutabréf Össurar hafa fallið mest í morgun, eða um 4,26 prósent og þar á eftir er Marel með 2,97 prósent lækkun.
Hlutabréf Haga og TM eru þau einu sem hafa ekki fallið í verði en síðarnefnda félagið birtir uppgjör sitt síðar í dag.
Þrátt fyrir lækkanirnar í dag hefur íslenska sumarið á hlutabréfamarkaði verið með besta móti en á undanförnum þremur mánuðum hefur íslenska úrvalsvísitalan hækkað um ellefu prósent.
Aðeins hefur verið hækkun á fjórum öðrum mörkuðum, en þær hækkanir hafa verið á bilinu tvö til fjögur prósent