Hlutirnir gerast hratt á hlutabréfamörkuðum

Fjárfestar fylgjast með hlutabréfunum sínum.
Fjárfestar fylgjast með hlutabréfunum sínum. AFP

„Þetta snýst að miklu leyti um breytingar á væntingum fjárfesta. Væntingar um tekjur og afkomu vegna viðskipta sem tengjast Kína eða öðrum hrávöruframleiðendum eru að lækka. Það getur stundum gerst mjög hratt,“ segir Stefán Broddi Guðjónsson, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka, um þær lækkanir sem hafa verið á kínverskum hlutabréfamarkaði seinustu daga.

„Sér í lagi getur þetta gerst hratt á hlutabréfamörkuðum þar sem hækkun hefur verið mjög skörp og að því er virðist úr takti við það sem er að gerast í efnahagslífi viðkomandi lands,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Áður en lækkun kínverskra hlutabréfa hófst í júní hafði aðalvísitala kínverskra hlutabréfa hækkað um rúm 60% það sem af var ári. „Það er býsna algengt að fjármálamarkaðir bregðist við með þeim hætti eftir miklar verðhækkanir. Þannig virka þeir oft,“ segir Stefán Broddi.

Hann segir að síðustu ár hafi vöxtur í Kína verið afar mikilvægur fyrir efnahagslíf í heiminum sem hafi til dæmis endurspeglast í því að kínverski þjóðargjaldmiðillinn hafði fram til ársins 2015 styrkst gagnvart dollar nánast samfellt í áratug. Þannig hafi vægi eftirspurnar frá Kína vaxið ár frá ári en viðbrögð á mörkuðum nú gefa til kynna að kínverska hagkerfið sé að kólna.  

Ísland er ekki eyland

Stefán Broddi nefnir að þróunin á alþjóðlegum verðbréfamörkuðum hafi áhrif hér á landi. „Verðbréfamarkaðir endurspegla væntingar til þróunar efnahagsmála í viðkomandi löndum og verðsveiflur gefa til kynna óvissu og lækkun hlutabréfaverðs og hrávöruverðs endurspeglar að væntingar verða dekkri.“

Hann segir að Ísland sé ekki eyland í efnahagslegu tilliti. „Ísland er opið hagkerfi sem treystir á viðskipti við útlönd með vörur og þjónustu. Fjölmörg íslensk fyrirtæki eiga í viðskiptum við útlönd og þegar hagkerfi heimsins kólnar og erlent eignaverð lækkar getur það að sjálfsögðu haft áhrif á eftirspurn eftir okkar framleiðsluvörum, svo sem áli, fiskafurðum og ferðaþjónustu, svo dæmi séu tekin.“

Hin hliðin á peningnum sé sú að verð á ýmsum erlendum afurðum kann að lækka sem ætti að leiða af sér minni þrýsting á verðbólgu og vexti. „Vonandi verða áhrifin aðallega í þá veruna hér á landi þannig að hér halda viðskiptakjörin áfram að batna,“ segir Stefán Broddi.

Áhættufælnir fjárfestar

Eins og kunnugt er lækkuðu hlutabréf allra félaganna í Kauphöll Íslands í gær, en alls lækkaði Úrvalsvísitalan um 2,5%.

Stefán Broddi segist aðspurður að fjárfestar hafi verið nokkuð áhættufælnir og leitað í kosti sem þeir töldu áhættuminni vegna óróleikans á mörkuðum um allan heim. Einnig skipti miklu máli að mörg íslensk fyrirtæki í Kauphöllinni, svo sem Marel, Össur, Eimskip, Icelandair Group og HB Grandi, séu að miklu leyti alþjóðleg fyrirtæki.

„Þetta eru allt félög sem eiga mikið undir því að fólk um heim allan kaupi þeirra framleiðsluvörur og þjónustu. Það er ekki óeðlilegt að þróunin erlendis hafa áhrif á þessi félög. En síðan má benda á að verðlækkun hrávara, þar á meðal eldsneytis, hefur jákvæð áhrif á rekstur þessara félaga. Þannig að áhrifin eru bæði jákvæð og neikvæð.“

Stefán Broddi Guðjónsson.
Stefán Broddi Guðjónsson. Ljósmynd/Arion banki
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK