Hrista af sér lækkanir

Evrópskar og bandarískar hlutabréfavísitölur sóttu í sig veðrið í dag eftir lækkanir gærdagsins. Ákvörðun kínverskra yfirvalda um að lækka stýrivexti um 0,25 prósentustig olli mikilli uppsveiflu á mörkuðum víða um heim og telja fjárfestar að það versta sé að baki.

Fjármálamarkaðir um allan heim skulfu í gær eftir hrun á hlutabréfum í Kína, en alls gufuðu um tugþúsundir milljarða króna upp á hlutabréfamörkuðum.

Hlutabréf í Kína héldu áfram að lækka í nótt, en hlutabréfavísitalan í Shanghai lækkaði til að mynda um 7,63% og hefur nú ekki lækkað jafn mikið á eins stuttum tíma í næstum tvo áratugi. Öll hækkunin á vísitölunni á árinu hefur þurrkast út og stendur hún nú í tæplega þrjú þúsund stigum, í fyrsta sinn á þessu ári.

Skömmu fyrir hádegi tilkynnti Seðlabanki Kína að hann hygðist lækka stýrivexti sína um 0,25 prósentustig. Er þetta fimmta vaxtalækkun bankans frá því í nóvember síðastliðnum.

Fjárfestar fögnuðu tíðindunum en Dow Jones hlutabréfavísitalan í Bandaríkjunum hækkaði um 1,7% þegar markaðir vestanhafs opnuðu eftir hádegi. S&P 500 vísitalan hækkaði um 2,16% og Nasdaq vísitalan um 3,03%, en þær hafa lækkað fimm daga í röð.

Þá hefur FTSE 100 vísitalan í Lundúnum hækkað um næstum því 3% og þýska Dax vísitalan og sú franska, Cac, farið upp um tæplega 5%.

Hlutabréfavísitölur í Lissabon, Madríd, Moskvu og Mílanó hækkuðu einnig eftir að fregnir bárust af vaxtalækkuninni.

Forsvarsmenn Seðlabanka Kína sögðu að markmiðið með vaxtalækkuninni væri að draga úr „samfélagslegum kostnaði við fjármögnun til þess að efla og styðja við sjálfbæra og heilbrigða þróun raunhagkerfisins“.

Bankinn ákvað jafnframt að lækka bindiskyldu sína og þar með auka peningamagn í umferð.

Hagfræðingar fögnuðu ákvörðun seðlabankans, en sérfræðingar hjá bankanum JP Morgan sögðu að hún hefði sennilega komið of seint. Bankinn hefði átt að bregðast fyrr við verðfallinu.

Fjárfestirinn Jim Rogers telur að tímabil óstöðugleika og óróa í Kína sé senn á enda. „Ég hef ekki selt nein kínversk hlutabréf. Fyrir nokkrum dögum, þegar þau hrundu, keypti ég fleiri. Að sjálfsögðu er ég núna að tapa peningum á þeim.“ Hann metur stöðuna þannig að botninum verði mjög fljótlega náð. Síðan ætti leiðin að liggja upp á við. 

Kínversk yfirvöld hafa á undanförnum vikum gripið til ýmissa aðgerða til að koma í veg fyrir frekari verðlækkanir á hlutabréfamörkuðum í landinu. Titringur gerði fyrst var við sig á mörkuðum þar í landi um miðjan júnímánuð, en þá höfðu kínversk hlutabréf snarhækkað í verði.

Fjárfestar óttast að vöxtur í Kína hafi hægt á sér. Samdráttur sé í kortunum sem muni hafa víðtæk áhrif um allan heim.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK