Markaðir vestanhafs enduðu í rauðu

Um tíma leit út fyrir að bjartsýnin hefði tekið völdin …
Um tíma leit út fyrir að bjartsýnin hefði tekið völdin á mörkuðum vestanhafs en þegar leið á daginn gáfu taugarnar undan. AFP/SPENCER PLATT

Rauði liturinn var allsráðandi þegar markaðir vestanahafs lokuðu í dag, eftir uppsveiflu í byrjun dags. Lækkun Dow Jones-vísitölunnar nam 1,29%, S&P 1,35% og Nasdaq 0,44%.

Fjárfestar sýndust nokkuð bjartsýnir fram eftir degi og það var ekki fyrr en undir lokun markaða að taugaspenna gærdagsins virtist ná yfirhöndinni.

„Taugar eru þandar vegna atburða gærdagsins,“ segir Bill Lynch, framkvæmdastjóri fjárfestinga hjá Hinsdale Associates. „Ég get ekki spáð fyrir um hvernig markaðirnir verða á morgun eða í næstu viku, óstöðugleikinn mun örugglega ríkja. En vonir mínar standa til þess að eftir tvo eða þrjá mánuði verði markaðirnir orðnir stöðugir.“

Það sem veldur fyrrnefndum óstöðugleika er hrun á hlutabréfamörkuðum í Kína, sem hefur vakið ótta um að næst stærsta hagkerfi heimsins sé veikara fyrir en menn þorðu að ímynda sér.

Hlutabréf í öllum 30 fyrirtækjunum sem Dow-vísitalan tekur til hækkuðu í morgun en við lok dags voru aðeins tvö í plús; Apple og Disney. Bæði fyrirtæki hækkuðu um 0,6%. Mest varð lækkunin á hlutabréfum í Merck, eða 5,2%.

Nokkur leiðandi fyrirtæki á sviði tækni og vísinda hækkuðu; Facebook um 1,1%, Netflix um 4,8% og Gilead Sciences um 1,9%, svo eitthvað sé nefnt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK