Að lifa eða dafna?

Shauna Shapiro er einn fremsti sérfræðingur heims í núvitund.
Shauna Shapiro er einn fremsti sérfræðingur heims í núvitund. mbl.is/Styrmir

Slæm áhrif þess að „múltítaska“, það er að gera margt í einu, voru meðal þeirra lykilatriða sem sálfræðiprófessorinn og núvitundarsérfræðingurinn Shauna Shapiro dró fram í fyrirlestri sínum í Hörpu í dag á vegum Mindfulness miðstöðvarinnar. Það var því heldur sauðslegur blaðamaður sem pikkaði upp eftir henni í gríð og erg á sama tíma og hann gerði sitt besta til að hlusta „ekki aðeins með huganum heldur með öllum líkamanum“ eins og Shapiro bað um.

Líkaminn er fastur í tíma og rúmi, í augnablikinu, og segir Shapiro meðvitund um eigin líkama því hjálpa til við að halda huganum jarðtengdum. „Hugurinn er óskammfeilinn, hann fer hvert sem hann vill fara,“ minnti Shapiro reglulega á í gegnum fyrirlestur sinn og undirstrikaði það með því að spyrja, þegar fjórar mínútur voru liðnar frá því að hún steig á svið, hvort einhverjir hefðu látið hugann reika á þeim tíma.

Allir í salnum réttu upp hönd. 300 manns, mestmegnis stjórnendur stofnana og fyrirtækja, gátu ekki haldið fullkominni athygli á fyrirlestri um athygli í fjórar mínútur.

Kompás hjartans

Þar sem blaðamaður situr á kaffihúsi í miðbænum og vinnur úr punktum fyrirlestrarins verður það deginum ljósara að það er ekki nóg að fara á einn fyrirlestur um núvitund til að halda sér á jörðinni.

Strax við skrif fyrstu setningar þessarar greinar flaug hugurinn að því hvernig mætti þýða „multi-tasking“ á íslensku. Eftir um fimm mínútna íhugun (fjöldi + framkvæma =fjölkvæma?) og sms með niðurstöðunum til móður sinnar (Svar: Haha) getur blaðamaður haldið áfram en þarf þá að ná aftur í skottið á hugsunum sínum um það verkefni sem raunverulega er fyrir hendi.

Shapiro tók það enda skýrt fram á fyrirlestri sínum að Róm var ekki byggð á einum degi. Sagði hún hugann vera á sveimi 47% vakandi stunda mannsins og að hver og einn hugsaði 12.000 til 50.000 hugsanir á dag. 95% þeirra hugsana væru endurtekningar.

„Ef þú vilt sjá skýrt þarftu að læra að veita athygli og það þýðir að þú þarft að þjálfa hugann.“

Hún sagði núvitund þó hreint ekki snúast um athyglina eina og sér. Núvitund væri samsett úr þremur þáttum: ætlun, athygli og viðhorfi.

„Ætlunin er kompás hjartans, hún er ekki með fastan áfangastað en beinir okkur í rétta átt og gefur okkur stefnu,“ hélt hún áfram og vitnaði í búddistann Suzuki Roshi. „Mikilvægasti hluturinn að muna er mikilvægasti hluturinn.“

Gaf Shapiro dæmi úr eigin lífi þar sem hún hafði verið fjarri syni sínum Jackson í langan tíma og ákvað að þegar hún kæmi heim myndi hún eyða með honum góðri stund og gefa honum ást og öryggi. Þegar heim var komið gerði hún þau tilbúin fyrir strandferð en sonurinn var lítið spenntur. Hann slóraði á pallinum utan við heimili þeirra og án þess að hugsa kallaði hún á hann með óþolinmæðistón. „Jackson!“ Þegar hún heyrði óminn af pirringnum í rödd sinni brá henni. Hún mundi af hverju þau ætluðu á ströndina til að byrja með og gekk til sonar síns.

„Ég settist niður og fann sólina á bakinu, hann hallaði sér að líkama mínum og ég fann höfuð hans á öxl minni og þarna var það, þarna var ætlun mín. Mikilvægasti hluturinn.“ 

Það var þétt setið í Silfurbergi í Hörpu eins og …
Það var þétt setið í Silfurbergi í Hörpu eins og sjá má. mbl.is/ Styrmir

Missum af heildarmyndinni

Shapiro sagði þó svo að við trúum hugsunum okkar séu þær ekki endilega sannar. Sagði hún „múltítasking“ (margar + aðgerðir = margerðir? ) gott dæmi um slíka sjálfsblekkingu.

 „Þegar við „múltítöskum“ gerum við tvöfalt fleiri mistök, það sem við erum að gera tekur þrefalt lengri tíma, við sleppum stresshormónum í blóðstreymið og verðum veik. Það er ekkert jákvætt við að „múltítaska“ og samt gerum við það öll.“

Sagði Shapiro að mannfólkið dæmi og meti allt í kringum sig á leifturhraða, þ.á.m. kosti þess að gera marga hluti í einu. Oft missum við af heildarmyndinni, metum rangt og dæmum aðra út frá ónógum forsendum.

„Það sem við æfum styrkist. Með núvitund æfum við okkur í að nálgast hlutina af gæsku . Hvert augnablik skiptir máli. Hvað sem þú ert að gera þá ertu að styrkja það. Ætlunin er að þjálfa vöðvann sem sér hlutina fyrir það sem þeir eru, ekki það sem við viljum að þeir séu.“

Shapiro segir rannsóknir á jákvæðum áhrifum núvitundar ná aftur fjóra áratugi og nefnir sérstaklega Nóbelsverðlaunarannsókn á litningaendum sem hún segir m.a. hafa sýnt að núvitund stuðli að langlífi.

„Hún hjálpar okkur þó ekki bara að lifa heldur að dafna.“

Shapiro sagði mikilvægt að halda aftur af tilhneigingum okkar til …
Shapiro sagði mikilvægt að halda aftur af tilhneigingum okkar til að dæma útfrá ónógum forsendum. mbl.is/Styrmir

Væmni eða vinnustaðastefna?

 „Ég heyrði í hjartanu í mér,“ sagði einn af sessunautum blaðamanns við annan sessunaut að lokinni hugleiðsluæfingu í miðjum fyrirlestri Shapiro. Staðhæfingin er falleg og líklega sönn fyrir fleiri en eina manneskju í salnum en það kom blaðamanni þó á óvart að sjá aldrei nokkurn viðstaddan gretta sig yfir tali Shapiro um tilfinningar og innri frið. Sérstaklega þegar hugsað er til þess að yfirskrift viðburðarins er „Framtíðin í leiðtoga-og stjórnunarfræðum“ og þátttakendur eru flestir stjórnendur úr atvinnulífinu þar sem „hinir hæfustu lifa af“ er frekar viðkvæðið en umburðarlyndi fyrir þörfum einstaklinga.

Tilfinningin er sú að mun færri hefðu sótt þennan fyrirlestur fyrir fáeinum árum og að Shapiro hefði verið afskrifuð sem væminn hippi. Shapiro hefur hinsvegar leiðbeint allt frá konungi Tælands og ríkisstjórn Danmerkur yfir í tæknirisana Cisco og Google og er meðal þeirra sem hefur sannfært mörg stærstu fyrirtæki heims um að í raun sé það frekar hamingjan sem búi til peninga en öfugt.

Í fyrirlestri sínum sagði Shapiro samkennd vera mikilvægasta þáttinn í samböndum, persónulega sem og innan fyrirtækja, og að sú sé þjálfuð með núvitund. Þá auki núvitund sjálfstraust einstaklinga sem geri það að betra starfsfólki og til að toppa allt styðji hún einnig við siðferðislega ákvarðanatöku sem sé líklega mikilvægasta breytan af þeim öllum.

„Ástæðan fyrir því að stórfyrirtæki eru að taka upp núvitund er ekki sú að þau séu andlega þenkjandi. Þau sjá kostinn á svo mörgum sviðum. Núvitund fléttar saman umhyggju fyrir einstaklingnum  og hvernig megi vera betri starfsmaður.“

Shapiro leiddi þátttakendur í nokkrum hugleiðsluæfingum.
Shapiro leiddi þátttakendur í nokkrum hugleiðsluæfingum. mbl.is/Styrmir

Ekki grípa heitu kolin

Shapiro sagðist telja að besta leiðin til að taka upp núvitund á vinnustað sé að stjórnendur taki hana upp sjálfir með það fyrir augum að fólk læri það sem fyrir þeim er haft. Sagði hún sanna samkennd alltaf þurfa að innihalda samkennd með sjálfum sér og vísaði til spurningar sem hún spurði við upphaf fyrirlestur síns: „Hverjir hafa aldrei fyrr upplifað meiri pressu í starfi?“ Mikill meirihluti gesta rétti upp hönd.

„Hversu mikil pressa er að utan og hversu mikið af henni kemur að innan?“ spurði Shapiro og vitnaði því næst í Dalai Lama. „Hugsanir um að maður sé ekki nógu góður eru eins og að teygja sig eftir heitum kolum. Þú tekur eftir að hugurinn teygir sig í staði sem munu meiða þig og þú þarft að segja nei.“

„Það er munur á að reyna í sífellu að bæta sig og á að frelsa sjálfan sig. Þetta snýst um frelsi, að stíga út fyrir vanann og eiga val. Að æfa ljúfa, góðlega og forvitna athygli.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK