Dóra Sif Ingadóttir, stórkaupmaður í barnafataversluninni Bíumbíum hnýtir á Facebook síðu sinni í auglýsingu Icelandair um Hraðtilboð nokkurra „rómaðra verslunarborga“
Segist Dóra hafa fengið aukinn blóðþrýsting og roða í kinnar við að lesa auglýsinguna sem hvetur lesendur til að gera „jólainnkaupin í rómaðri verslunarborg“. Dóra segir útlönd helstu keppinauta fataverslana á Íslandi og að henni þyki skjóta skökku við að hvetja sérstaklega til jólagjafakaupa erlendis.
„Veljum íslenskt, styðjum íslenskt viðskiptalíf..... þið þekkið þetta og ég líka. Þess vegna hefur aldrei hvarflað að mér að fljúga til og frá landinu með öðrum flugfélögum en þeim íslensku- það er eitt af mínum aumu framlögum til þjóðarbúsins. Ef allir kaupa jólagjafirnar í rómaðri verslunarborg úti í löndum þá sit ég ein og vond með mig í minni litlu fjölskyldureknu verslun sem skaffar mér og mömmu minni atvinnu. Ef allir kaupa jólagjafirnar í rómaðri verslunarborg úti í löndum koma takmarkaðar tekjur í formi virðisaukaskatts í sparikassa ríkisins.“
Dóra bendir á niðurskurð í heilbrigðiskerfinu og viðskiptaþvinganir og segir þjóðina, jafnt sem einstaklingana sem verslað er við, þurfa á því að halda að peningar haldist í landi. Þá segir hún vandláta og hagsýna einnig þurfa á gjöfum úr innlendum verslunum að halda enda sé ekki hagkvæmt að gefa hluti sem ekki er hægt að skipta geti viðtakandinn ekki nýtt hana.
„Hugsið ykkur tvisvar um áður en þið bókið ferð með jólagjafainnkaupin í forgangi því útlönd hafa upp á svo maaaaargt annað og rómaðra að bjóða en verslanir. Þær eru í grófum dráttum eins alls staðar,“ skrifar Dóra. „Splæsið í rómaða upplifun á framandi stað með uppáhalds fólkinu ykkar og ólíkri menningu og fjárfestið í minningum. Þó svo að innflutningstollar og flutningskostnaður bitni örlítið á neytendum og varan sé kannski oggulítið ódýrari í öðrum löndum - þá eru góðar útlandaminningar ekki metnar til fjár.“
Ég læt svo sjaldan í mér heyra hérna á Facebook þó ég hafi skoðanir á öllu milli himins og jarðar! Ég reyni líka að...
Posted by Dora Sif Ingadottir on Tuesday, August 25, 2015