Bandarískar hlutabréfavísitölur hækkuðu um meira en 2% þegar markaðir opnuðu vestanhafs eftir hádegi í dag. Dow Jones vísitalan hækkaði um 2,10%, S&P 500 um 2,07% og Nasdaq um 2,15%.
Í Evrópu lækkuðu hlutabréf hins vegar í verði. FTSE 100 hlutabréfavísitalan í Lundúnum fór niður um 1,4% og í París og Frankfurt lækkuðu hlutabréf um 1,3% og 1,2%.
Sérfræðingar búast við því að áfram verði óróleiki á hlutabréfamörkuðum, að minnsta kosti þar til peningastefnunefnd Seðlabanka Bandaríkjanna kemur saman í næsta mánuði og tekur ákvörðun um hvort hún hækki stýrivexti bankans.
Michael Hewson, markaðsgreinandi hjá CMC Markets, telur að markaðir verði áfram óstöðugir þar til í september.
„Þetta eru tegundir af sveiflum sem við sáum seinast árið 2008,“ segir hann.
Hann býst ekki við því að stýrivextir verði hækkaðir í Bandaríkjunum í næsta mánuði, meðal annars vegna þess að hlutverk seðlabankans sé að viðhalda fjármálastöðugleika.
„Ég held að þeir yrðu algjörlega klikkaðir að hækka vextina núna,“ segir hann.