Ekki minnst einu orði á hrunið

Kínverskir fjárfestar fylgjast með hlutabréfum sínum.
Kínverskir fjárfestar fylgjast með hlutabréfum sínum. AFP

Þrátt fyrir að kínverskir hlutabréfamarkaðir hafi hríðfallið í vikunni var varla minnst einu orði á hrunið í fjölmiðlum þar í landi.

Ekkert var minnst á hrunið á forsíðu dagblaðsins People’s Daily, málsgagns kínverska kommúnistaflokksins, í gær. Þess í stað mátti finna þar ítarlega umfjöllun um efnahagsþróunina í Tíbet. Og það sem meira er um vert, þá var ekki minnst einu orði á skjálftann á kínverskum mörkuðum í öllu 24 síðna blaðinu.

Ekki var heldur fjallað um málið í blaði dagsins, þó svo að minnst hafi verið á ákvörðun Seðlabanka Kína um að lækka vexti sem og yfirlýsingu Li Keqiang, forsætisráðherra Kína, um að kínverska hagkerfið stæði styrkum fótum, þrátt fyrir það sem hann kallaði „markaðsóstöðugleika“.

Verðfall varð á ný á Shanghai-markaðinum í Kína í dag, en nokkru minna en í gær og á mánudag, eða 1,27%. Hlutabréfavísitalan hefur nú lækkað um 16% í vikunni.

Viðkvæmir leiðtogar

People’s Daily er einn af fjölmörgum fjölmiðlum sem kínversk yfirvöld stýra. Leiðtogar landsins hafa tekið skýrt fram að þeir vilji ekki að fjölmiðlar fjalli um titringinn á hlutabréfamörkuðum. Ekki sé ráðlegt að tala um neitt hrun.

„Mig grunar að þeir vilji ekki þola aðra bylgju af opinni blaðamennsku af hálfu kínverskra fjölmiðla,“ segir David Bandurski, ritstjóri China Media Project í Hong Kong háskólanum, en hann hefur fjallað ítarlega um hvernig kínversk yfirvöld ritskoða fjölmiðla landsins.

„Þetta eru viðkvæm efnahagstíðindi fyrir Kína,“ bætir hann við.

Hann bendir á að í aprílmánuði hafi People’s Daily verið á meðal þeirra fjölmiðla sem hvöttu fjárfesta til þess að kaupa hlutabréf, á þeirri forsendu að hlutabréfaverð myndi halda áfram að hækka, þrátt fyrir stöku hiksta.

Á forsíðu ríkisfjölmiðilsins Xinhua var í gær umfjöllun um heimsókn Xi Jinpings, forseta Kína, til Tíbets árið 1998, þegar hann var embættismaður í austurhluta landsins. Ekki var minnst á hlutabréfahrunið. Það sama var uppi á teningnum í sjöfréttum China Central Television á mánudaginn. Ekkert var minnst á hrunið.

Mega ekki tala um „hrun“

China Digital Times greindi frá því í júní að kínversk yfirvöld hefðu gefið út sérstakar leiðbeiningar til fjölmiðla landsins. Var þeim fyrirskipað að fjalla um þróunina á hlutabréfamarkaðinum í samræmi við þessar leiðbeiningar. Markmið yfirvalda var að sögn að koma í veg fyrir að óþarfa bölsýni og ofsahræðsla gripi um sig.

„Vinnið ekki ítarlegar greiningar og getið ykkur ekki til um eða leggið mat á þróunina á markaðinum,“ sagði í leiðbeiningunum. „Gerið ekki of mikið úr óróleika eða sorg. Ekki nota tilfinningatengd orð á borð við „fall“, „skellur“ eða „hrun“.“

Nokkrir fjölmiðlar í landinu fjölluðu þó um titringinn á kínverska markaðinum, en settu málið í stærra samhengi, alþjóðlegt samhengi. Sögðu aðeins að mikill samdráttur í öllu heimshagkerfinu hefði haft einhver smávægileg áhrif á kínverska markaði.

Sumir fara gegn flokkslínunni

Þá gengu sumir fjölmiðlar skrefinu lengra og hikuðu ekki við að fara gegn flokkslínunni. Þeir gagnrýndu kínversk yfirvöld harðlega fyrir að hafa ekki brugðist nægilega hratt og vel við hruninu. Þau hefðu átt að gera meira. Aðrir færðu rök fyrir hinu gagnstæða, að kínversk yfirvöld ættu að hætta að skipta sér af hlutabréfamarkaðinum.

Securities Daily, sem er leiðandi dagblað í kínverskum viðskiptaheimi, notaði tækifærið og hvatti ríkisstjórn Xi til þess að grípa til frekari aðgerða til þess að halda hlutabréfaverði uppi. „Fallið á hlutabréfamörkuðum er að eyðileggja það sem er eftir af sjálfstrausti fjárfesta, og þetta vandamál er mjög alvarlegt,“ sagði í leiðara blaðsins.

Blaðið sagði að undirliggjandi þættir í kínverska hagkerfinu væru áfram sterkir en fjárfestar væru hins vegar bölsýnir og litu ekki til þessara þátta. Verðlækkunin á mörkuðum væri „órökrétt“ og „illkvittin“.

Dagblaðið The Economic Information Daily, sem er í eigu ríkisfjölmiðilsins Xinhua, færði rök fyrir því að kínverska ríkisstjórnin ætti að hætta að reyna að styðja hlutabréfamarkaðinn. Þess í stað ættu leiðtogar landsins að einbeita sér að því að skjóta styrkari stoðum undir kínverskan efnahag og auðvelda fyrirtækjum að fjárfesta og ráða til sín starfsfólk.

Tortryggni fjárfesta hefði valdið óróleikanum á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum. Kínverska hagkerfið væri í ágætu standi.

Xi Jinping, forseti Kína.
Xi Jinping, forseti Kína. EPA
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK