Á föstudaginn var opnuð ný sérverslun fyrir kjötvöru á Grandagarði, en það eru þau Þórarinn Jónsson og Lisa Boije frá Hálsi í Kjós sem reka verslunina ásamt Helga Ágústssyni. Til að byrja með eru allar vörur sem í boði eru framleiddar á Hálsi, en þar verður ásamt nautakjöti boðið upp á sinnep, krydd, chutney og sultur.
Síðustu sex ár hafa þau rekið verslun á bænum í Kjósinni þar sem fólki hefur gefist að kaupa af þeim nautakjöt og aðrar vörur. Þórarinn segir í samtali við mbl.is að þau hafi byrja að velta fyrir sér að fara í verslunarrekstur í bænum samhliða búskap fyrir um ári síðan, en það hafi ekki verið endilega á planinu strax. Svo hafi Faxaflóahafnir allt í einu auglýst húsnæðið og þau slóu til. „Við ákváðum að stökkva og fengum húsnæðið og þá var ekki aftur snúið,“ segir Þórarinn.
Hann segir að undanfarin ár hafi þau reglulega komið á matarmarkað Búrsins sem haldinn hefur verið í Nóatúni og í Hörpunni. Þar hafi þau fengið fyrirspurnir hvar hægt væri að nálgast kjötið utan markaðarins. Segir Þórarinn að hluti viðskiptavinanna hafi miklað það fyrir sér að auka upp í Kjós til þeirra og þá hafi þau einnig séð að í raun væri sama vinna á bak við að hafa verslun opna um helgar upp í Kjós og fara alla leið og opna venjulega verslun. Þau hafi því ákveðið að opna í bænum.
Grandagarðurinn er að verða einn af sælkerastöðum höfuðborgarsvæðisins, en á undanförnum árum hefur mikill fjöldi veitingastaða og minni sérverslunum opnað þar. Auk Matarbúrsins er nú sérverslunin Búrið í næsta húsi, en hún sérhæfir sig í ostum. Þá er ísbúðin Valdís rétt hjá og bakarí sem og fjöldi veitingastaða. Segir Þórarinn að sér sýnist sem þetta sé að verða að nýjasta sælkerahverfinu í Reykjavík. „Hér er mikið um mat, matarstrætið er að verða til,“ segir hann.
Fyrst um sinn mun verslunin aðeins selja vörur frá búinu að Hálsi. Þórarinn segir að þau hafi samt komist fljótlega að því á Hálsi að þeirra vara myndi duga stutt ef það væri það eina sem yrði í boði. Vonast hann til þess að á næstunni verði einnig bætt við lambakjöti og kjúklingi frá öðrum býlum. „Sjáum hvað fólk biður um, við byrjum allavega sem sérverslun með nautakjöt.“
Þórarinn segir að þó bætt verði við kjöti víðar að verði áherslan alltaf lögð á rekjanleika. Segir hann að viðskiptavinir geti alltaf gengið að því vísu að vita hvaðan kjötið komi.
Undanfarin ár hefur áhugi Íslendinga á kjöti með rekjanleika aukist talsvert. Þórarinn segir að gríðarleg eftirspurn hafi verið hjá þeim, fólk vilji geta keypt beint af bónda. Segir hann að fólk treysti því að um hágæðaframleiðslu sé að ræða í slíkum tilfellum. „Það er enginn bóndi að fara að selja sína vöru sjálfur og krukka eitthvað í vörunni,“ segir hann og bætir við að þegar um sé að ræða vörur sem komi beint frá býli þá standi framleiðandinn beint gegn neytandanum og þurfi að standa sig bæði vel og hafa frábæra vöru fram að færa.
Kjötið er þó ekki það eina sem heimilisfólkið að Hálsi framleiðir, því Lísa hefur verið iðin við að nýta allskonar jurtir til matargerðar. Þannig verða þau með til sölu krydd, chutney, sultur og sinnep sem hún hefur gert.
Matarbúrið opnaði sem fyrr segir síðasta föstudag, en það verður opið alla daga vikunnar, utan sunnudaga og mánudaga.