Á síðustu misserum hefur fasteignafélagið Reginn gert sig gildandi í miðborginni. Í lok árs 2013 keypti félagið gamla Reykjavíkurapótekið, sem teiknað er af Guðjóni Samúelssyni og þykir eitt reisulegasta hús borgarinnar. Kaupverðið var um 1.100 milljónir og síðan þá hafa um 900 milljónir verið lagðar í endurbætur á því. Helgi S. Gunnarsson, forstjóri félagsins, segir miðborgina í mikilli mótun og að þar liggi mörg tækifæri. Það hafi valdið því að félagið keypti sig inn á Hörpureitinn svokallaða og nú síðast verðmætar fasteignir í Lækjargötu og Austurstræti.
Í samtali við Viðskiptamoggann í dag segist Helgi hafa mikla trú á því að verslunarrýmið sem fyrirhugað er á Hörpureitnum muni draga öflug alþjóðleg verslunarfyrirtæki til landsins.
„Við ætlum að laða heimsþekkt vörumerki inn í þessi rými. Ráðgjafar okkar eru farnir að kynna möguleikana sem liggja þarna. Það gera þeir á sýningum víða um heiminn og meðal þeirra aðila sem þeir munu ræða við er að sjálfsögðu H&M, sem þeir hafa einmitt starfað töluvert með á síðustu árum. Við erum þó að sjálfsögðu í samtali við marga stóra aðila og höfum raunar verið að skanna allan markaðinn.“