Hlutabréfavísitalan í Sjanghaí hækkaði um 4,82% í dag og er þetta annar dagurinn í röð sem vísitalan hækkar þar eftir mikla lækkun undanfarið. Hlutabréfavísitalan í Shenzhen hækkaði um 5,40%.
Hækkunin er rakin til hagvaxtartalna frá Bandaríkjunum og hækkunar á helstu hlutabréfamörkuðum heims. En eins er orðrómur uppi um að kínversk yfirvöld standi að hluta á bak við hækkunina með inngripum á markaði.
Í Tókýó hækkaði Nikkei hlutabréfavísitalan um 3,03% og í Hong Kong hækkaði Hang Seng vísitalan lítillega.
Þegar viðskipti hófust í Evrópu í morgun hækkuðu helstu hlutabréfavísitölur álfunnar líkt og í gær. Í Lundúnum hækkaði FTSE vísitalan um 0,24%, CAC vísitalan í París hækkaði um 0,12% og DAX í Frankfurt hækkaði um 0,20%.