Fataframleiðandinn 66°norður mun í september opna aðra verslun sína í Kaupmannahöfn og að þessu sinni verður hún á sjálfu Strikinu, sem flestir verslanaþyrstir Íslendingar þekkja vel. Húsnæðið sem mun hýsa verslunina var byggt árið 1826, en það er nákvæmlega 100 árum áður en Sjóklæðagerðin var stofnuð á Íslandi.
Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri félagsins, segir í samtali við mbl.is að verið sé að byggja búðina upp, en hún verður staðsett á Östergade 6, í neðsta hluta Striksins, rétt við Kongens Nytorv.
Í október á síðasta ári opnaði fyrirtækið aðra verslun, ekki langt frá, við Sværtegade, en Helgi segir að þrátt fyrir mikla nálægð þá sé þarna um algjörlega aðskilinn markhóp að ræða. Á Strikinu komi mikið af ferðamenn og mikill vöxtur sé á þessu svæði í fataverslunum sem horfi til ferðamanna. Nefnir hann að margar lúxusverslanir hafi opnað þarna undanfarið, svo sem Gucci, Hermes og Louis Vuitton.
Verslunin í Sværtegade er að hans sögn aftur á móti stíluð mun meira á heimamenn, enda sé hún í einni af hliðargötunum niðri í miðbæ þar sem íbúar Kaupmannahafnar versli meira sjálfir.
Sölupláss í nýju versluninni verður um 90 fermetrar, en það er litlu minna en í fyrri versluninni. Segir Helgi að reynt verði að bjóða upp á allar vinsælustu vörur fyrirtækisins á nýja staðnum, en stærðin muni þó eitthvað takmarka vöruframboðið.
Ef frá eru taldar verslanir sem voru reknar um stutta stund í Lettlandi þar sem framleiðsla fyrirtækisins er, þá eru þetta fyrstu tvær verslandi 66°norður erlendis. Helgi segir að verið sé að klára að ganga frá ráðningum, en að aðeins sé um að ræða starfsfólk verslananna. Ekki verði opnuð skrifstofa í Danmörku, heldur verði öll bakvinnsla, markaðsmál o.s.frv. áfram á Íslandi.
Aðspurður út í það af hverju Danmörk hafi orðið fyrir valinu segir Helgi að Danir hafi sýnt vörumerkinu mikinn áhuga hér á landi og verið hrifnir af því. Þá séu Skandínavíulöndin áhugaverður staður út af veðráttu sem passi vörulínu fyrirtækisins. Danmörk er einnig eina Skandínavíulandið sem á ekki sitt eigið stóra útivistarmerki, að sögn Helga. Það geri samkeppnisumhverfið öðruvísi og sé betra fyrir ný fyrirtæki á markaðinum.
Hjólreiðar eru mjög vinsælar í Danmörku og segir Helgi að hingað til hafi regnkápur fyrirtækisins slegið í gegn hjá Dönum. Þá sé einnig talsvert um sölu á svokölluðum skeljum, en það er veðurþolið ysta lag. Þá segir hann Dani einstaklega áhugasama um merinó ullarfatnað sem fyrirtækið hefur hannað. Segir Helgi það áhugavert í ljósi þess að þar sem fyrirtækið hafi selt sína vörur í gegnum þriðja aðila erlendis, þá hafi ullarfatnaðurinn ekki notið mikilla vinsælda. „En þeir eru vitlausir í þetta í Danmörku,“ segir hann og bætir við að kauphegðun Dana sé ekki ólík kauphegðun Íslendinga.