Aukin útgjöld vegna hælisleitenda

Flóttamenn streyma til Evrópu og gert er ráð fyrir auknum …
Flóttamenn streyma til Evrópu og gert er ráð fyrir auknum útgjöldum vegna fleiri hælisleitenda. AFP

Gert er ráð fyrir að rekstrargjöld vegna hælisleitenda hækki um 172,7 milljónir króna frá fjárlögum yfirstandandi árs. Í fjárlögum 2016 er gerð tillaga um tímabundna 175 milljóna króna hækkun framlags í eitt ár til að mæta auknum kostnaði vegna fjölgunar hælisleitenda.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að áætlanir um styttri málsmeðferðartíma hafi ekki gengið eins vel eftir og ráð var fyrir gert og því er einnig þörf á þessu tímabundna framlagi.

Kostnaður fjárlagaliðarins hefur aukist verulega síðustu árin, frá því að vera 60 milljónir króna árið 2011 í 463 milljónir árið 2014.

Í frumvarpinu segir að vonir hafi staðið til þess að átaksverkefni undanfarinna ára leiddi til umtalsverðrar lækkunar liðarins á yfirstandandi ári og voru fjárveitingar því lækkaðar í 285 milljónir króna. „Það er ekki að ganga eftir,“ segir í frumvarpinu.

Vísað er til þess að í samræmi við alþjóðasáttmála hvíli ófrávíkjanleg skylda á íslenska ríkinu að halda uppi hælisleitendum á meðan á meðferð umsóknar stendur.

Þá segir að íslensk stjórnvöld hafi á síðustu árum unnið að því að hámarka skilvirkni og gæði innan hæliskerfisins hér á landi og vísað er til þess að síðastliðið vor samþykkti Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga sem lið í þessu. Þar var m.a. ný kærunefnd lögfest en hún tók til starfa sl. áramót.

Í frumvarpinu segir að tímabundnir erfiðleikar í málsmeðferð hælisleitenda hafi komið upp sem valda því að biðtími hælisleitenda eftir niðurstöðu hefur lengst á ný auk þess sem fjöldi hælisleitenda haldi áfram að aukast. Taka mun lengri tíma en áætlað var að ná markmiðum um afgreiðslutíma hælismála.

Dvalargjöld hælisleitanda, sem ekki fær úrlausn sinna mála, er 7.800 krónur á dag, 234.000 krónur á mánuði og 2.808.000 krónur á ári.

Í málaflokknum er einnig gert ráð fyrir 2,3 milljóna króna lækkun útgjalda til að mæta aðhaldsmarkmiðum. Aðrar breytingar á fjárheimild liðarins skýrast af launa- og verðlagsreikningi frumvarpsins og nema alls 17,4 milljónum króna til viðbótar.

Fjárheimild Útlendingastofnunar lækkar

Hins vegar er gert ráð fyrir að fjárheimild Útlendingastofnunar lækki um 24,1 milljón króna að raungildi frá fjárlögum þessa árs.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að niður falli tímabundið 29,4 milljóna króna framlag vegna átaks í úrvinnslu eldri mála hælisleitenda.

Í öðru lagi er lögð til 7,5 milljóna króna tímabundin hækkun framlags í eitt ár til kaupa á hrákortum til notkunar við útgáfu á dvalarleyfiskortum sem staðfesta heimild erlendra ríkisborgara til dvalar hér á landi.

Ísland hefur skuldbundið sig til að framfylgja nýjum tæknikröfum sem leiðir af Schengen regluverkinu sem gera m.a. kröfur um skráningu persónugagna í örgjörva slíkra korta. Þær kröfur eru frá árinu 2011 og 2012 en hafa ekki verið innleiddar. Unnið er að undirbúningi á innleiðingu á nýjum kröfum til dvalarleyfiskorta og er stefnt að því að útgáfa þeirra korta hefjist 1. janúar 2017.

Í þriðja lagi er lögð til 2,2 milljóna króna lækkun útgjalda til að mæta aðhaldsmarkmiðum í frumvarpinu. Aðrar breytingar á fjárheimild liðarins skýrast af launa- og verðlagsreikningi frumvarpsins og nema alls 13,4 milljónum króna til viðbótar.

Útlendingastofnun
Útlendingastofnun mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK