Í tilkynningu frá WOW air segir að frá því að félagið hóf áæltunarflug til Boston hafi almennt fargjald á flugleiðinni lækkað um þrjátíu prósent. Þá hafi heildarfjöldi farþega frá Boston til Íslands aukist um 130 prósent. Þá eru ekki meðtaldir tengifarþegar sem halda áfram með vélum félagsins eftir stopp á Íslandi.
WOW air hóf áætlunarflug til Bandaríkjanna í vor; Boston hinn 27. mars og Washington, D.C. hinn 8. maí. Til Boston er flogið sex sinnum í viku allan ársins hring en til Washington fimm sinnum í viku allt árið. Upphaflega stóð til að fljúga aðeins fjóra mánuði á ári til síðarnefndu borgarinnar en vegna eftirspurnar var framboðið aukið.
Það sem af er ári er heildarfjöldi farþega með WOW air frá Bandaríkjunum 72 þúsund farþegar.
Í tilkynningu frá WOW segir að miðað við tölur um meðalkortaveltu ferðamanna megi ætla að þessi aukning farþega hafi skilað nærri einum milljarði íslenskra króna í þjóðarbúið.
„Það er frábært að geta haldið áfram að lækka flugverð eins og raun ber vitni líka til Norður-Ameríku eins og við höfum þegar gert til áfangastaða okkar í Evrópu. Það er augljóst hvað samkeppni er mikilvæg og skilar sér beint til neytenda. Byggt á þessum góðu viðtökum mun WOW air rúmlega tvöfalda sætaframboð sitt til og frá Norður-Ameríku á næsta ári með tilkomu nýrra áfangastaða,“ er haft eftir Skúla Mogensen, stofnanda og forstjóri WOW air, í tilkynningu.