Getur Lars Lagerbäck orðið forseti Íslands?

Lars Lagerbäck, þjálfari karlalandsliðsins í knattspyrnu.
Lars Lagerbäck, þjálfari karlalandsliðsins í knattspyrnu. mbl.is/Kristinn

Hvað þarf að gerast svo Lars Lagerbäck, þjálfari karlalandsliðsins í knattspyrnu, geti orðið forseti Íslands? Eiríkur Elís Þorláksson, hæstaréttarlögmaður og lektor í lagadeild Háskólans í Reykjavík, svarar því í grein sem birtist í ViðskiptaMogganum í dag. Hann segir að fyrsta skrefið sé að Lars verði íslenskur ríkisborgari. En verði Lars forseti, getur hann þá þjálfað landsliðið áfram?

Grein Eiríks í heild:

„Eftir góðan árangur karlalandsliðsins í knattspyrnu fóru þær raddir að heyrast að gera ætti þjálfara liðsins að forseta Íslands. Þjálfarinn heitir Lars Lagerbäck og er sænskur. Ekki er hægt að útiloka að tillögur um Lars sem forseta hafi verið settar fram í gríni. En eins og kunnugt er fylgir öllu gríni einhver alvara. Er því rétt að skoða þessa tillögu betur, þ. á m. lögfræðilega. Tvennt kemur til skoðunar hvað það varðar. Annars vegar hvort sú staðreynd að Lars er erlendur ríkisborgari hindri að hann geti orðið þjóðarleiðtoginn á Bessastöðum. Hins vegar, ef hann getur orðið forseti, hvort hann geti þá áfram stýrt íslenska landsliðinu í knattspyrnu. Það atriði hlýtur að skipta miklu máli því að varla vilja knattspyrnuáhugamenn fá hann á Bessastaði ef það leiðir til þess að við sitjum uppi með annan og lakari kost í þjálfarastarfinu.

Hvað varðar hið fyrra atriði, hvort Lars geti orðið forseti, þá er svarið: já ef hann sækir um og fær íslenskan ríkisborgararétt. Í 4. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram að kjörgengur til forseta sé hver 35 ára gamall maður, sem fullnægir skilyrðum kosningaréttar til Alþingis, að fráskildu búsetuskilyrðinu. Þarf þá að skoða kosningarétt til Alþingis, en slíkan rétt hafa allir sem hafa íslenskan ríkisborgararétt. Samkvæmt þessu geta aðeins íslenskir ríkisborgarar boðið sig fram til að gegna embætti forseta Íslands. Lars er sem fyrr segir sænskur og fullnægir því ekki skilyrðum að þessu leyti til að bjóða sig fram til forseta.

Hins vegar gæti hann sótt um að verða íslenskur ríkisborgari og þannig öðlast kjörgengi að ríkisborgararétti fengnum. Um ríkisborgararétt er fjallað í lögum nr. 100/1952 og samkvæmt þeim getur erlendur ríkisborgari fengið ríkisborgararétt hér á landi annaðhvort með ákvörðun Alþingis eða Útlendingastofnunar. Almenna reglan hvað varðar Norðurlandabúa er sú að þeir geti fengið ríkisborgararétt á fjórum árum, að öðrum skilyrðum fullnægðum.

Um síðara atriðið, þ.e. hvort Lars geti stýrt landsliðinu áfram ef hann ákveður að sinna framangreindu kalli og yrði að undangengnum kosningum eða sjálfkjöri forseti lýðveldisins, er þetta að segja: Fljótt á litið sýnist að lög girði ekki fyrir það. Í 9. gr. stjórnarskrárinnar segir að forseti megi ekki vera alþingismaður né hafa með höndum „launuð störf í þágu opinberra stofnana eða einkaatvinnufyrirtækja“. Að því gefnu að Lars freistist ekki til að setjast á Alþingi kemur til skoðunar hvort starf hans sem landsliðsþjálfari geti skoðast sem starf í þágu opinberrar stofnunar eða einkaatvinnufyrirtækis, sem framangreind 9. gr. kemur í veg fyrir að hann geti gegnt gegn launagreiðslum. Vinnuveitandi Lars, þ.e. Knattspyrnusamband Íslands, KSÍ, getur hvorki talist opinber stofnun né einkaatvinnufyrirtæki, heldur er það félagasamtök.

Þá er rétt að nefna að talið hefur verið að mat á því hvaða öðrum störfum forseti getur gegnt samhliða forsetastarfinu sé fyrst og fremst siðferðislegs eðlis og háð mati viðkomandi sjálfs þegar 9. gr. sleppir. Ef Lars stæði frammi fyrir því að meta hvort hann ætti að halda áfram sem þjálfari landsliðsins ætti það mat að vera honum auðvelt. Í öllu falli væri ekki siðferðislega ámælisvert af hans hálfu að starfa áfram sem þjálfari, enda er það vart ósamrýmanlegt starfi hans sem forseti. Einhver kynni jafnvel að segja að honum væri það siðferðislega skylt að halda áfram sem landsliðsþjálfari ef hann nær kjöri á Bessastaði.

Samkvæmt öllu framangreindu getur Lars Lagerbäck orðið forseti Íslands að því gefnu að hann öðlist íslenskan ríkisborgararétt. Ef hann verður forseti hindrar það ekki að hann starfi áfram sem landsliðsþjálfari í knattspyrnu. Boltinn er nú hjá Lars.“

Eiríkur Elís Þorláksson, lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík.
Eiríkur Elís Þorláksson, lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík.
Gylfi Þór Sigurðsson faðmaði Kolbein Sigþórsson að leikslokum á Laugardalsvelli …
Gylfi Þór Sigurðsson faðmaði Kolbein Sigþórsson að leikslokum á Laugardalsvelli eftir markalaust jafntefli við Kasakstan. mbl.is/Golli
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka