„Við höfum sagt að við verðum nánast með útbreiðslu um allan heim í lok ársins 2016 en við höfum ekki gefið neitt upp varðandi Ísland,“ segir upplýsingafulltrúi Netflix aðspurður hvenær von sé á opnun efnisveitunnar hér á landi.
Þrátt fyrir að Netflix vilji greinilega ekki gefa upp nákvæmar dagsetningar hafa forsvarsmenn fyrirtækisins verið að gera samninga við rétthafa myndefnis á Íslandi. Áður hefur verið greint frá samningum fyrirtækisins við Samfilm en Björn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Senu, staðfestir í samtali við mbl að Sena hafi einnig gengið til samninga við Netflix. Hann segir efnisvalið sem Netflix hefur tryggt sér vera nokkuð breitt.
Aðspurður um stærð samningsins segir Björn hann vera ágætan, en ekkert óvenjulega stóran.
Björn segir að boltinn sé núna hjá Netflix. „Nú vitum við ekki meira í bili,“ segir hann. „Við vitum ekki hvenær þeir ætla að ríða á vaðið.“
„Þeir virðast bara vera að undirbúa þetta og ganga frá samningum,“ segir Björn.
Netflix opnaði fyrir nokkru sérstaka undirsíðu tengda Íslandi þar sem lítið kemur þó fram. Þar geta áhugasamir beðið um að fá tilkynningu í tölvupósti þegar Netflix verður opnað.
Í síðustu viku sendi Netflix frá sér tilkynningu þar sem greint var frá áformum um mikla útbreiðslu í Asíu á fyrri hluta næsta árs og í júní var greint frá opnun á Ítalíu, Spáni og Portúgal í október nk. Virðist því sem Netflix tilkynni um opnun með a.m.k. nokkurra mánaða fyrirvara.
Þrátt fyrir að Netflix hafi ekki beint verið í boði fyrir íslenska neytendum benda kannanir til þess að um 20 þúsund íslensk heimili séu með áskrift að bandarísku þjónustunni í gegnum krókaleiðir. Óvíst er hvort þessir viðskiptavinir ákveði frekar að nýta sér íslensku útgáfuna.
Bent hefur verið á að mikill munur sé á milli úrvalsins sem þar er í boði og yrði á íslenskum veitum. Þegar Netflix hóf t.d. að bjóða þjónustuna á Norðurlöndunum voru margir sem töldu úrvalið síðra en það sem var í boði í Bandaríkjunum og fetuðu því áfram krókaleiðir að bandarísku útgáfunni. Sem dæmu um þetta hafa víða verið birtar leiðbeiningar á netinu þar sem til dæmis Norðmönnum eða Bretum er beint framhjá þeirra eigin útgáfu - í þá bandarísku.
Samkvæmt nýjustu þróun er þá einnig ljóst að Netflix mun ekki taka íslenska markaðinn í einum bita þar sem SkjárEinn hefur t.d. tilkynnt að allt púður verði lagt í gagnvirka efnisveituþjónustu frá og með næstu mánaðamótum. Fyrr á árinu byrjaði Vodafone þá einnig að bjóða upp á Play og Cirkuz þjónustu og á síðasta ári keyptu 365 miðlar fjarskiptafyrirtækið Tal og hóf sölu á fjarskiptaþjónustu samhliða afþreyingunni.